Grænlandskvöld 3. janúar. Hreindýrabóndinn og hlýnun jarðar

Fimmtudaginn 3. janúar kl. 20 í sal FÍ verður haldið Grænlandskvöld í boði Ferðafélags Íslands. Stefán Hrafn Magnússon, hreindýrabóndi í Isortoq, mun fjalla um mannlíf og þær ógnir sem náttúran stendur frammi fyrir vegna hlýnunar jarðar. Stefán hefur undanfarna áratugi búið í skjóli jökulsins og séð þau áhrif sem orðið hafa.

Hrafn Jökulsson, forseti skákfélagsins Hróksins, mun flytja erindi um mannlíf á Grænlandi. Hrafn hefur ásamt félögum sínum unnið gríðarlegt starf við að breiða út skák á Grænlandi. Hann býr að yfirburðaþekkingu á landi og þjóð vegna mannúðarstarfa sinna.

Reynir Traustason mun ásamt Stefáni kynna fyrirhugaða gönguferð í sumar um Suður-Grænland sem hann og Stefán Hrafn leiða ferðalanga um afar fáfarnar slóðir. Ferðast verður um sjó og land og mun fólki gefast kostur á að sjá með eigin augun undurfagra náttúru Grænlands og skynja þær ógnir sem að henni steðja.

Heiðursgestur kvöldsins verður Kristjana Motzfeldt, fyrrverandi landshöfðingjafrú Grænlands. Kristjana verður með erindi byggt á yfirburðaþekkingu hennar á náttúru og mannlífi Grænlands.

Sýndar verða myndir frá Grænlandi og varpað ljósi á þennann næsta nágranna okkar í vestri.