Hálendisferð 1954

Þátttakendur í ferðinni
Þátttakendur í ferðinni

Hálendisferð með Guðmundi Jónassyni

                                10-23 ágúst 1954

Sprengisandur, Askja, Herðubreiðarlindir, Mývatn, Akureyri,    Reykjavík.

 

                     Jón Fr. Sigvaldason tók saman.

 

Ég starfaði sumarmánuðina 1949 – 1952 í Mývatnssveit, einkum við verkstæðisrekstur.

Oft var rætt um öræfin suður af sveitinni, aðallega af hagnýtum ástæðum, enda flæktist fé allt suður í Grafarlönd.  Ég slæddist eitt sinn með í eftirleit. Sú ferð vakti lotningu mína fyrir fjalladrottningunni Herðubreið.  Ræddi ég við Mývetninga um mögulega göngu á fjallið, sem var talin algjör fjarstæða, enda fjallið „ókleift“. Hinsvegar höfðu breskir ferðamenn verið á þessum slóðum 1937 eða 1938 og haldið því fram að þeir hefðu klifið Herðubreið, en slíkri firru trúðu menn ekki, enginn gat klifið Herðubreið og því hafði enginn komið þar upp.

 Þannig gufuðu upp draumar mínir í bili.  En Askja var sterkt inni í myndinni enda hvíldi enn mikil dulúð yfir þeim stað eftir hvarf Þjóðverjanna Rudolfs og Knebel árið 1907.  Það var síðan á vormánuðum árið 1954 að fundum okkar Guðmundar Jónassonar bar saman, en hann ráðgerði mikla hálendisferð norður yfir landið með viðkomu í Öskju og Herðubreiðarlindum.   Bauð Guðmundur mér vildarkjör ef ég yrði honum til aðstoðar í ferðinni.  Beit ég á agnið og skráðum við hjónin Mary og ég okkur í ferðina sem ráðgerð var um miðjan ágúst.

Þetta var ekki fyrsta ferð Guðmundar um þessar slóðir því árið 1952 fór hann í fyrsta skipti þessa leið, fyrstur allra með farþega gegn greiðslu, sem voru nokkrar kjarnakonur. María Maack var driffjöðrin í því ævintýri. Hitti þau í Reynihlíð en þar var ég  í vinnu.

Frá árinu 1953 fór Guðmundur árlega í ferðir norður Sprengisand, Gæsavatnaleið, í Öskju og Herðubreiðarlindir.

 

 

                                          FERÐIN.

Það var 10. ágúst 1954 sem við 13 ferðafélagar  mættum kl 8:30 við ferðaskrifstofuna Orlof í Hafnarstræti.  Þar var fyrir Guðmundur Jónasson með sinn mikla fjallabíl  R-346 4x4 af gerðinni G.M.C með sæti fyrir  19 farþega.  Fullbúinn til brottfarar, m.a. með uppblásinn gúmmibát á toppnum og fullar matarkistur í lestinni. Ferðalangarnir virtust strax passa vel  saman, þekktust auðvitað ekkert fyrir, enda af fjórum þjóðernum, ein sænsk ein dönsk, ein þýsk og níu Íslendingar. Lagt var af stað kl. 9,00 í ágætu sólarlausu veðri og var áætlun dagsins til Landmannalauga. Lítið bar til tíðinda í upphafi enda ekki búið að finna upp vegasjoppur. Skroppið var upp að Grýtu í Hveragerði, stungið í holuna sápuslettu til örvunar, enda fengum við veglegt gos.  Litið var inn hjá  K.Á. á Selfossi til birgðasöfnunar. Ekki veitti af fyrir langa ferð framundan.   Nú var ekið um Suðurlandið og upp Landsveit, ferðalangarnir farnir að kynnast svolítið og dást að landinu í ágætu sólarlausu veðri en góðri fjallasýn þar sem Hekla skartaði sínu fegursta.  Uppi í Rangárbotnum ókum við frammá tjald skammt frá vegslóðanum þar sem var reiðhjól fyrir utan.  Guðmundur stöðvaði bílinn, og taldi víst að um Guðmund Kjartansson jarðfræðing væri að ræða, enda færi hann oftsinnis í rannsóknarferðir á hjóli um hálendið. „Er ekki best að heilsa upp á karlinn“ sagði Guðmundur svo að við hlupum að tjaldinu og litum inn.  Þar situr enginn Guðmundur Kjartansson, heldur maður sem ég  var vel kunnugur, Svafar Björnsson frá Brún í Reykjadal.  Þarna var hann  bara í einskonar hugleiðslu, orðinn matarlaus og ekki vel haldinn.  Hann kvaðst ekki hafa neina sérstaka ferðaáætlun svo við buðum honum með norður sem hann þáði með þökkum.  Tjaldinu var pakkað í bílinn og hjólið á toppinn.  Þetta atvik átti eftir að reynast okkur hinn mesti happafengur sem síðar kemur að í frásögn minni.  Næst var ekið um Dómadalsleið og til Landmannalauga með smá stoppi við Frostastaðavatn.  Þegar í Laugar kom var tjaldað í fyrsta skipti í ferðinni.   Veðrið var ágætt og nægur tími til að litast um,  svo Guðmundur tók hópinn í ferð inn í Grænagil, sem var mikil upplifunin fyrir okkur, sérstaklega útlendinganna sem voru að sjá ósnerta hveri í fyrsta sinn.

11. ágúst.   Eftir ágæta fyrstu nótt í óbyggðum, var haldið áleiðis til Veiðivatna með stoppi við Ljótapoll, sem ber ekki nafn með rentu, því þetta er einhver fallegasti gígur landsins. Sumir  gengu um barmana en aðrir hlupu niður að vatninu.  Áfram var haldið niður að Hófsvaði á Tungnaá.  Geta má þess að það var Eggert Kristjánsson stórkaupmaður og Sæmundur í kex-verksmiðjunni Esju, sem var nágranni Guðmundar í Þverholtinu, sem ætluðu í veiði inn í Veiðivötn með flugi, en Sæmundur þekkti áhuga Guðmundar að finna bílfært vað yfir Tungnaá og varð það úr að gera út leiðangur til að finna vað og komast þannig í veiðina.  Það var hinn 27. ágúst 1950 sem Guðmundur og félagi hans Egill Kristbjörnsson lögðu í að vaða ána og fundu eftir nokkra leit, slarkfæra hlykkjótta bílfæra leið yfir ána, og var það nefnt Hófsvað eftir hóflaga kletti í ánni sem nefndur er Hófur.  Sumir vildu nefna vaðið Gvendarvað sem Guðmundur kærði sig ekki um.  Nú var lagt í ´ann yfir ána, sem tók óratíma að okkur fannst ( 20 – 30 mínútur) og skildum við ekki hvernig  karlinn gat ratað yfir þennan stórgrýtta botn í ánni  með einu leiðamerkin, nokkra kletta á stangli.  Þar með var mesta torfæran að baki.  Áfram   var haldið eftir sæmilega greiðfærum slóða inn í Veiðivötn að Stóra Fossvatni og tjaldað þar.

12. ágúst. Dagurinn hófst með með góðum morgunverði sem samanstóð af hafragraut, brauði, mjólk, hangikjötsáleggi, eggjum og fleiru.  Nú var haldið af stað til veiða, 2-3 veiði-stangir fyrir strandveiðar og gúmmibáturinn settur á flot.  Róið var vítt og breitt um vatnið, en aflinn var rýr, aðeins eins punds urriði og ekkert frá ströndinni. Aflinn var svo soðinn um kvöldið, allir fengu að smakka og urðu mettir. Næst var ekið að Nátttröllinu við Tungnaá.  Þar rýkur félagi Svafar fyrirvaralaust til klifurs allslaus og komst í sjálfheldu á miðri leið.  Guðmundur keyrði bílinn alveg upp að klettinum og tókst að kasta reipi með einhverri festu svo hann gat á yfirvegaðan hátt fikrað sig niður á bílþakið við mikinn létti ferðafélaganna.

13. ágúst  Lagt  var af stað um kl. 9:30. Áfangastaðurinn var Nýidalur við Tungnafellsjökul.   Ekið var um greiðfæra slóða alla leið, en stoppað víða á leiðinni.  Guðmundur lagði mikla áherslu á að fræða hópinn um landið og söguna, ekki veitti af, enginn okkar hafði áður komið á þessar slóðir.  Þegar farið var norður með Þórisvatni að vestanverðu bað Guðmundur okkur að skima eftir hvort við sæum silung vaka í spegilsléttum vatnsfletinum.  Svo fór að við héldum okkur sjá það í sjónauka, en vorum ekki viss.  Ástæða þessa áhuga Guðmundar var sú að Þórisvatn var talið fisklaust þangað til að Guðmundur og Þóroddur Jónsson skinnakaupmaður og heildsali, gerðu út leiðangur til Veiðivatna í júlí 1951, tóku þar 40 urriða sem þeir fluttu í mjólkurbrúsum sem þeir hleyptu lofti í úr hjólbarðaslöngum.  Þetta tókst og enginn þeirra dó.  Það var svo ekki fyrr en nokkrum árum síðar sem mælingamenn, að talið var, fundu „miðin“ sem voru innst í austurhluta vatnsins, en þar koma kaldavermslindir í vatnið sem eru kjörstaður fyrir fisk og veiðimenn. 

Við ókum norður með vatninu sem leið lá og nutum útsýnis í ágætu veðri. Lítið var um grös og blóm og því kom það að óvörum  þegar stórar breiður af eyrarrós birtust neðan við slóðina í þurrum leirflögum.  Þetta var bara fyrsta breiðan af mörgum. Ekið var sem leið lá yfir Þórisós og Köldukvísl að Illugaveri og áð fyrir nestisát og klósettferðir. Þarna var líka bensíntunna sem Guðmundur hafði áður komið þar fyrir.  Ég vil geta þess að Guðmundur lagði ríka áherslu á að allt sem fólk lét frá sér í föstu formi skildi hulið svo engin ummerki sæust eftir.  Guðmundur var á undan sinni samtíð á þessu sviði sem öðrum.  Nú var haldið rakleitt í Nýjadal við Tungnafellsjökul.  Slegið var upp tjöldum á góðum stað þar sem nóg var af góðu vatni til neyslu og þrifa.  Veðrið var ágætt skýjað, logn og 10 stiga hiti.  Gengið var snemma til náða enda stór dagur í vændum.

14. ágúst.  Fólk var árrisult og eftir morgunþrifin á likama og sál, var snæddur morgunverður.   Á þessum árum var ekki auðvelt að geyma t.d, brauð og mjólk.  Mjólkin var alltaf sett í næsta læk til kælingar í mjólkurbrúsa sem þá tíðkuðust, engin G-mjólk engar pappaumbúðir  (Tetrapak), mjólkin var bara seld í sérstökum mjólkurbúðum og ausið í ílát sem þú komst með að heiman, en flöskumjólk var að koma á markað um þetta leyti.   Guðmundur ók upp á háan hól til að hafa samband við Gufunes radío ýmissa erinda.  Við vissum að von var á þremur ferðafélögum með þeim nafnkunna flugmanni Birni Pálsssyni.  Stóð það heima að hann kom um 12 leytið og lenti á sléttum mel skammt frá tjöldunum.  Bættist nú í hópinn aldursforsetinn Ásbjörn Halldórsson prentari, Sverrir Scheving jarðfræðingur og vísindamaður og matráðskonan ( matráður var ekki komið í málið á þessum tíma ) Halldóra Guðmundsdóttir, afburða dugleg sem reyndist okkur vel í öllu.  Ferskvara, mjólk og brauð kom með sem nægði okkur allt til byggða.   Von var á annari flugvél frá Birni um kl. 13,00, með þrjá, frönsk hjón og Ítala.  Sá flugmaður var ókunnugur og villtist norður fyrir jökulinn og hvarf  sjónum okkar en snéri við. Þá kveikti Guðmundur á blysi sem flugmaðurinn sá og lenti við mikinn fögnuð okkar hinna. Farþegar þeirrar vélar dvöldu stutt við og fóru áfam með vélinni.  Um kl. 13,00 var haldið af stað að Tungnafellsjökli í þungbúnu veðri.  Fólk var hvatt til að hafa með góð föt, þar sem útlit var fyrir rigningu. Það var þó ekki fyrr en í blálokin að fór að rigna. Farið var upp rana sem reyndist greiðfær, talsvert mosagróinn norðvestan í  jöklinum.  Við fengum á okkur smávegis haglél upp á brúninni.  Nú var okkur skipað í halarófu á 25 – 30 metra reipi til öryggis og gekk Guðmundur síðastur.  Nýr snjór lá yfir jöklinum og sást sumstaðar í sprungur, 10 – 20 cm. breiðar.  Gengið var upp í 1520 metra hæð, áð smástund og kíkt í nestisboxið.  Nú var stefnan tekin á móbergshöfða ofar í dalnum og eftir smáæfingar við að velta steinum fram af hengiflugi var hugað að gönguleið niður Kaldagil all hrikalegt ásýndum.  Heldur var seinfarið niður og erfitt að fóta sig á bröttu móberginu, en hafðist þó á endanum án áfalla.   Dalurinn var talsvert gróinn, mest mosa og lágvöxnu grasi.  Í miðjum dalnum fundum við hauskúpu af kind, sandorpna að hálfu og einnig hauskúpu af fugli.  Næst var hugað að trjáplöntum sem Guðmundur og ferðafélagar höfðu plantað árið áður. Hér var um að ræða birki, ösp og greni.  Um 20 plöntur voru lifandi að okkur virtist en sumarvöxtur var lítill eða enginn.  Ekki er mér kunnugt hvernig þessari tilraun til trjáræktar lyktaði.   Áfram var haldið að tjaldbúðunum og þurftum við að fara yfir ána sem rennur eftir dalnum. Þarna var hún orðin hin myndarlegasta, vegna leysinga og regns.  Nokkrar af konunum voru vanbúnar til fótanna svo Guðmundur skipaði okkur strákunum að bera þær yfir, sem við gerðum við mikinn fögnuð.  Komið var í tjaldbúðir um kl. 21:30, mannskapurinn orðinn þreyttur og slæptur.  Matmóðir okkar veitti vel svo allir fóru mettir í pokana.

15. ágúst.  Þegar fólk var risið úr rekkju var tekið til við þrif á líkama og búnaði, fatnaður þurrkaður sem blotnað hafði daginn áður og tjöld látin þorna áður en þau voru tekin niður.     Veðrið var ágætt og hélst svo allan daginn, sólskin af og til.  Um tvöleytið var haldið af stað úr dalnum áleiðis til Gæsavatna.  Um kl. 14:30 var komið í Tómasarhaga, en þar í grennd sáum við nokkra steindepla,  rjúpnapar með stálpaða unga og annað par með einn unga nokkra daga gamlan.  Í Tómasarhaga var áð drjúga stund.  Guðmundur var ötull sem fyrr við að fræða okkur um umhverfið og söguna, en hann var hafsjór af fróðleik er varðaði land og sögu.  Haldið var af stað um kl 17.00, um gróðursnautt landið.  Einstaka geldingarhnappur á stangli var eini gróðurinn sem við sáum utan mosa hér og þar í bleytum.  Guðmundur þekkti hentugt vað yfir Fjórðungskvísl, sem ekki reyndist fyrirstaða.  Þegar leið á daginn varð alskýjað en skyggni gott og fjallasýn tiltölulega góð.  Ekið var um misgóða ( vonda ) slóð allt að upptökum Skjálfandafljóts, sem kemur í dreifðum kvíslum undan jökli og var greitt yfirferðar, vart meira en eitt fet þar sem dýpst var.  Stutt var nú í Gæsavötn, en eftir að fara yfir Rjúpnabrekkukvísl og Hraunkvísl.  Vorum við nú komin að útjaðri Ódáðahrauns sem var úfið og ógreiðfært,  dálítið sandorpið en með öllu gróðursnautt. Um kl. 20.00 náðum við til Gæsavatna og flýttum okkur að tjalda enda orðið dálítið kalt.  Eftir að fólk hafði hlaðið geymana af mat og drykk, með smá uppákomu með prímus sem endaði útí læk, var brugðið á leik með draugasögum og lesið úr Grimmsævintýrum, sem áttu vel við öræfin þegar dimmt var orðið.  Sagnamenn voru einkum Guðmundur og Ásbjörn prentari.  Flestir voru gengnir til náða um miðnætti í stjörnubjörtu veðri og tunglskini.

16. ágúst.  Um morguninn voru sumir snemma á fótum og könnuðu staðinn.  Tjöldin höfðu verið reist milli þriggja vatna þar sem lækur rann á milli.  Ekki greindum við líf í þessum vötnunum sem kann þó að hafa verið eitthvað, en um morguninn flaug stelkur yfir tjöldin og hvarf.  Eins birtist töluvert af steindeplum og maríuerlum sem maður sá víða á hálendinu.  Þarna voru einkennilegar uppsprettur sem komu uppúr einskonar þúfum sem voru 50 – 70 cm. háar og 1 – 2 m. í þvermál, virtist um að ræða leir í vatninu sem myndaði þessa hrauka ( þúfur ). Eftir morgunverð var farið yfir búnað og bíl.  Reyndist okkur þetta hinn ágætasti tjaldstaður, nóg ískalt vatn á staðnum og ekki spillti falleg fjallasýn, léttskýjað og gola en kalt.   Eftir tjaldfellingu og þrif var haldið af stað um hádegisbil.  Leiðin um Dyngjuháls til Kistufells var mjög seinfarin og tók um fjórar klst.  Mannskapurinn var í stanslausum grjótburði í slóðina, sem gerði  götuna greiðari og fékk hópurinn sæmdarheitið BRAUTRYÐJENDUR hjá næstu ferðalöngum.  Við Kistufell var stansað og gengið  inn að jökli.  Rifjað var upp er hópur Ferðafélags Akureyrar fór þarna upp á Bárðarbungu undir forystu Þorsteins Þorsteinssonar formanns félagsins, þegar flugvélin Geysir fórst þar um miðjan september 1950. Það var áliðið dags þegar lagt var í hann til Öskju, sem var tiltölulega greiðfært. Ferðin þangað tók fimm klukkustundir.  Lá leiðin m.a. um Holuhraun og aura Jökulsár á Fjöllum.  Áin kemur í fjölmörgum kvíslum undan jöklinum. Guðmundur hélt sig sem lengst frá jökulröndinni. Þarna var víða sandbleyta sem best var að forðast. Um kl. 23,30 var komið að Drekagili við Öskju í framúrskarandi veðri, logn hlýju og björtu af tungli.  Ekki reyndist auðvelt að fá festu fyrir tjaldhælana í sandinum og leituðum við uppi steina til að fergja hælana en fundum ekki. Þarna var bara vikur en lognið bjargaði öllu.  Seint var gengið til náða þetta kvöld, en sofið því betur um nóttina .

17. ágúst. Við vorum ræst um tíuleytið sem var frekar seint, en þreyta var í mannskapnum frá erfiðum gærdeginum.  Veðrið var ágætt en sólarlaust.  Það var komið undir hádegi þegar loksins var ekið af stað upp að Öskjuvatni og Víti.  Flest okkar fóru niður að Öskjuvatni og í Víti lauguðu menn fætur sína í volgu vatninu.  Áður en haldið var til baka skrifuðum við nöfnin okkar á góðan pappír og lögðum í flösku sem Guðmundur hafði meðferðis. Því næst var gengið frá flöskunni í vörðu þeirri sem er að finna á staðnum.  Varða þessi var reist árið 1908 til minningar um tvo þýska vísindamenn sem hurfu sporlaust á svæðinu árið áður.  Þeir hétu Walther Knebel og Max Rudolf.    Guðmundur útlistaði þetta rækilega, en talsverðar ritaðar heimildir er að finna um þennan atburð, sumt þjóðsagnakennt.  Nú skiptist hópurinn, sumir óku til baka að Drekagili meðan hinir gengu yfir hálsinn að tjöldunum og fengu stórkostlegt útsýni úr 1360 metra hæð yfir Öskju og nágrennni. Einhverjar mestu hamfarir á sögulegum tíma urðu í Öskju 1874 þegar Öskjuvatn myndaðist, og stór hluti Austurlands fór nánast í eyði, vegna stórgoss sem engu eirði, fólki né fénaði.                                                                                                                                                      Við komum í tjaldstað um kl. 16:40 og drifum okkur að fella tjöld og koma í bílinn, sem gekk fljótt og vel og vorum við komin af stað áleiðis til Herðubreiðarlinda upp úr 18:00.  Komið var í Lindir um ellefu leytið í myrkri og tunglsljósi.  Sumir voru seinir í pokann, enda dálítið spenntir fyrir morgundeginum að hitta sjálfa drottninguna, Herðubreið.

18. ágúst.  Morguninn rann upp bjartur og fagur sem kom sér afar vel, en öllu máli skiptir gott skyggni þegar reynd skyldi uppganga á fjalladrottninguna, Herðubreið.   Lagt var af stað laust fyrir kl. 10.00 með nesti, tól og tæki til klifurs, tvær ísaxir og reipið góða ca 25-30 metra langt.  Guðmundur hafði reynt að afla upplýsinga um hvar líklegast væri að reyna uppgöngu á fjallið. Sú eftirgrenslan benti til að besta væri að ráðast til uppgöngu norðan til í fjallinu.  Gangan yfir Lindahraunið  var auðveld, en tók þó nærri  tvær klst.    Við komum að fjallinu að norðan verður og lögðum á brattann þar sem að var komið.  Skipulagið var þannig að ganga skáhalt upp skriðuna svo brattinn væri minni og hætta af grjóthruni lítil.  Gangan tók á, enda skriðan mjög laus í sér, þegar u.þ.b. 2/3 voru að baki blasti við skál í klettabeltið, sem samkvæmt lýsingu gæti verið hin rétta leið.  Nú var breytt um  stefnu og gengið nánast beint upp og ekki litið um öxl fyrr en við hið óárennilega hamrabelti.  Þótti sumum  nóg um að horfa niður 43 gráðu bratta skriðuna og lofthræðslan var slík hjá okkar ágætu dönsku samferðakonu að hún lagðist niður og neitaði að fara lengra.  Henni var boðið að snúa við ásamt þeim sem treystu sér ekki lengra.  Eftir 10 – 15 mínútur stóð hún upp og vildi halda áfram eins og hinir.  Lítt vorum við búin í klettaklifur sem framundan var, leyst okkur heldur illa á allt lausagrjótið sem við gátum ekki treyst á að fá ekki í hausinn.  Svafar fór fremstur og ruddi niður lausu grjóti, en hinir biðu til hliðar þar til klárt var upp á næsta stall.  Fremstir fóru Svafar og Sverrir sem var vanur fjallamaður. Þeir drógu mannskapinn upp, stall af stalli og notuðu ísaxirnar og reipið.  Þessi hugaði ( fífldjarfi ) hópur samanstóð af níu konum og fjórum körlum, 13 alls sem reyndist hin mesta happatala.  Fyrstu 70 – 80 metrarnir í klettunum tók okkur fjórar klst og reyndi mjög á mannskapinn sem von var enda í stórhættu alla leiðina upp.  Brosleg atvik komu uppá t.d. þegar Mary kona mín ( við vorum einu hjónin í ferðinni ) leit upp og sá hvar Sigríður Árnadóttir sem var á næsta stalli fyrir ofan hana dillaði fótum eins og hún væri sallaróleg. Þetta róaði mína konu og hleypti í hana kjarki.  Síðar kom í ljós að fótahreyfingar Sigríðar voru ósjálfráðar. Raunin var sú að hún skalf af hræðslu.  Að loknum þessum háskalega áfanga var það mikill léttir að sjá upp í efri skálina, grjótskriðu og síðan minna klettabelti.  Miðað við það sem var að baki, var gangan upp á brún hrein skemmtun.  Þegar þangað kom varð ólýsanlegt spennufall, fólk gerði að gamni sínu. Mér var bent á að ég hefði ekki þurft að bera vatnsbrúsa upp, því silfurtær buna tók á móti okkur, en það var eina vatnið sem við fundum alla ferðina úr Lindum.  Þá rifjast upp gullkorn Guðmundar, þegar hann sagði að ef við finndum ekki betri leið til niðurgöngu, en þá sem við fórum upp, yrðum við bara að bíða þar til okkar yrði saknað og við sótt.  Þegar við vorum að leggja af stað á toppinn sáum við vörðutippi á brúninni í ca 250 – 300 metra fjarlægð, töldum að þarna væri e.t.v.  hin rétta leið til ferða á fjallið.   Nú leit allt betur út  og hröðuðum við okkur á toppinn 1682 metra háan, sem við náðum um kl 20.00. Útsýnið var stórkostlegt, verður vart með orðum lýst,  loftið silfurtært, heiðríkja í allar áttir og hvergi nein móða í lofti.  Sjóndeildarhringur okkar var eftirfarandi: Í suðri Hvannadalshnjúkur, síðan hringinn réttsælis, Tungnafellsjökull, Hofsjökull, Mælifellshnjúkur, Tröllaskagi, Flateyjardalsheiði og Kinnarfjöll. Skjálfandaflói, Tjörnes, Öxarfjörður, Melrakkaslétta og fjöllin þar suður af, út á Héraðsflóa, og til Austfjarða- og Hornafjarðarfjalla.  Eftir á reiknaðist okkur til að  þetta væri um 40% af Íslandi. Við stöldruðum stutt við, 20 – 30 mínútur enda kalt á toppnum, tvær gráður á sama tíma voru 15 gráður í Herðubreiðarlindum, enda 1200 metrum lægra í landinu.   Eftirvænting var að komast á staðinn þar sem við töldum okkur hafa séð vörðuna á uppleiðinni, sem rétt reyndist og stóð hún á brúninni þar sem var besta gönguleiðin.  Ekki var að finna neina heimild í vörðunni, flösku eða annað, svo blessuð varðan er mér og öðrum ráðgáta sem verður vart ráðin hver hlóð, en orðrómurinn í Mývatnssveit um að Bretar hefðu sagst hafa gengið á fjallið árið 1937 eða ´38 sem enginn trúði þar í sveit, kann að hafa verið réttur. 

Léttist nú brúnin á mannskapnum. Þegar við horfðum niður virtist okkur leiðin vera hin greiðfærasta, að minnsta kosti miðað við þá vítisleið sem við völdum okkur til uppgöngu, sem engum var um að kenna nema ókunnugleika og skorti á upplýsingum sem ekki voru til.  Nú loksins gátum við talað um hlutina á léttu nótunum.   Ýmislegt var rifjað upp úr ljóði Tómasar Guðmundssonar, Fjallgöngunni sem bar ótrúlega vel saman við raunir okkar, en við vildum bæta við að „ landslag yrði lítils virði ef það“ sæist „ekki neitt“.  Upp úr kl. 21:00 var lagt af stað niður og gengið lengst af í jaðri skafls sem náði u.þ.b, hálfa leið niður.  Guðmundur kallaði til okkar að gæta okkur á hörðum klakanum, þegar komið var neðar í skaflinn.  Þessi varnaðarorð heyrðu ekki allir, svo einum ferðafélaganum varð á að stíga út á klakann, falla á bakið og renna  niður á fullri ferð.  Sem fyrr var félagi Svafar á réttum stað, kastaði sér á félagann, hjó ísexinni í klakann og dró svo úr ferðinni að þegar slétt klöpp varð fyrir stöðvaðist skriðið. Ekki urðu umtalsverð meiðsli, sem óhjákvæmilega hefðu orðið hefði Svafars ekki notið við.  Ferðin gekk hægt og farið var að dimma þegar niður var komið um kl. 22:30.  Hófst nú gangan í Lindir fyrst á lausum sandi meðfram fjallinu og síðan yfir kolsvart hraunið. í myrkri og tunglsljósi.  Við gættum fullrar varúðar og siluðumst áfram, sáum ljós í Lindunum rétt fyrir miðnætti.  Vatnsbirgðirnar þraut á leiðinni sem háði okkur nokkuð. Við gátum ekki haldið hópinn þar sem Þorbjörg sneri sig á ökkla. Við  Mary og Sverrir fylgdum henni og komum því ekki á leiðarenda fyrr en kl. 2.00 um nóttina. Þar með var 16 klst ferð á Herðubreið lokið  og allir ánægðir yfir farsælum ferðalokum.  Blessuð ráðskonan beið og beið eftir hópnum og veitti af örlæti, þegar hún heimti sauði sína af fjalli í 11 gráðu hita og logni og  blíðu.  Á þessum tíma var ekki hægt um vik að geyma ferskan mat í langferðum en fóðrið var þurrkað og saltað, ávextir sem þó var erfitt að fá, kartöflur, rófur og niðursoðin matvæli af ýmsu tagi og harðfiskur, að sjálfsögðu.  Svafar hafði á orði, að þegar hann kæmist heim í Reykjadalinn mundi hann slátra lambi handa okkur, sem hann og gerði

 

19. ágúst  Kl. 8:30 ræsti Halldóra okkur Mary og Sverri og við hefjumst handa við grautargerð o.fl. matarstúss, en matarbirgðir voru orðnar knappar, mjólkin búin og brauð og álegg komið á tíma, en öllu bjargaði Halldóra með sæmd.  Flestir fengu að sofa fram yfir kl 10.00 enda fjallafarar örþreyttir þegar komið var í náttstað.  Guðmundur svaf úti í hvannstóðinu kringum lindirnar í veðurblíðunni.  Þegar allir voru búnir með morgunmatinn var farið í gönguferð, hreysi Fjalla-Eyvindar skoðað ásamt upptökum Lindaár.  Guðmundur lagði til að breyta ferðaáætluninni, þannig að fara ekki beint í Mývatnssveit heldur um Grímsstaði, Dettifoss, Ásbyrgi, Húsavík og þaðan í Mývatnssveit.  Þetta töldum við verðskuldaðan bónus, eftir vel heppnaða ferð yfir hálendið.  Hafist var handa við tjaldfellingar, gröft á sorpi og annan frágang.  Gúmmibáturinn tekinn niður og róið niður Lindaá með Sverri sem stýrimann og Guðmund sem skipstjóra.  Ég ók bílnum niður að bílvaðinu þar sem hinkrað var eftir bátnum, honum skellt aftur á toppinn og haldið af stað til byggða.  Bátsferðin tók á aðra klukkustund. Eftir nestisát og hvíldarstund voru Lindir yfirgefnar kl. rúmlega 16.00.   Skömmu eftir að við lögðum af stað fór bíllinn að rása í slóðinni.  Guðmundur stoppaði og snéri sér við og sagði „ Jón vilt þú ekki taka við, ég er að sofna“.  Þar með urðu sætaskipti og ég keyrði norður að Hrossaborg, en þá vaknaði Guðmundur eftir tveggja tíma svefn.  Nú var haldið til Grímsstaða enda klukkan farin að ganga sjö.  Gott var að koma í Grímsstaði, þar sem við hittum fyrst annað fólk á ferð okkar, bæði greiðasala og símstöð, sem gagnaðist okkur vel.  Margir þurftu að hringja heim og allir þáðu góðar veitingar, smurt brauð með hinu rómaða Hólsfjallahangikjöti, nýmjólk og kaffi.   Um kl 20.00 var lagt af stað niður að Selfossi þar sem við dvöldum stundarkorn. Síðan að Dettifossi, aflmesta fossi Evrópu.  Við Dettifoss þurfti Guðmundur að vera eftir í bílnum og reyna að ná sambandi við Gufunesradíó.  Hann fól okkur Sverri að gæta þess að fólk færi ekki of nærri ánni og gljúfurbarminum, sem ekki allir virtu. Af þeim sökum þurftum við Sverrir að grípa til okkar ráða.  Olli það smá leiðindum. En öll él styttir upp um síðir.  Sverrir skýrði jarðfræðina sem var hans sérgrein og Hildegard hin þýska var eins og í kennslustund enda jarðfræðinemi frá Köln.  Nú var haldið niður í Ásbyrgi og komið þangað um kl 20.30.  Tjaldað var í flýti innst í Byrginu, báturinn tekinn niður, settur á hvolf og notaður sem sæti og trambólín.  Einhver matur var dreginn upp úr kistum og kaffi veitt, en ekki þurfti mikið eftir kvöldmáltiðina á Grímsstöðum.    Nú blés Guðmundur til fagnaðar og dró tappa úr flösku, sem hann hafði lumað á.  Ekki reyndust allir áfengis þurfi t.d. drógum við Mary okkur út úr hópnum og fórum að sofa og svo var um fleiri.       

  20.ágúst  Við vorum ekki árisul þennan morguninn enda var langt liðið á nóttina þegar fólk gekk til náða. Drifum við tjöldin saman í hasti, náðum að pakka næstum þurru  þrátt fyrir smá skúr. Þegar stytti upp gengum við niður að botntjörninni og kringum hana, virtum fyrir okkur lífríkið í tjörninni og fjölbreytt fuglalífið .  Sverrir veitti okkur fræðslu um kenningar hvernig Byrgið myndaðist og sagði þjóðsöguna um hestinn Sleipni sem sagður var hafa tyllt niður fæti og mótað það.   Við íslendingarnir dáðumst að „ skóginum“ sem voru mestmegnis lágvaxnar hríslur, þær hæstu fjórir metrar. Stöku tré inn í botninum voru þó allt að 10 metra háar.  Um þrjúleytið var haldið af stað og stefnt til Mývatns.  Stansað var í Lindarbrekku og drukkin mjólk sem veitingakonan „ Lilla“ færði okkur út i bíl svo töf yrði sem minnst.  Áfram var haldið um hið undurfagra Kelduhverfi þar sem margir höfðu ekki komið áður. Síðan var ekið uppá Reykjaheiði framhjá Fjöllum, sem er vestasti bærinn í sveitinni.  Eftir útsýnisgláp á há heiðinni var ekið til Húsavíkur og komið þangað kl. 18.30.  Skiptist nú hópurinn, við Mary héldum upp í Hvol þar sem foreldrar henna bjuggu, meðan hinir skoðuðu kirkjuna fögru og litu inn í kaupfélagið og Guðjohnsens verslun.  Höfðu menn á orði hvað bærinn væri þrifalegur með mörg falleg hús. Um kl. 19.00 var haldið af stað og ekin þjóðleiðin um  Aðaldal og Reykjadal  að Brún heim til Svafars þar sem við kvöddum hann. Hann sem lofaði okkur nýju lambakjöti á bakaleiðinni.  Við nutum fagurs sólseturs meðan ekið var framhjá Másvatni og allt til Skútustaða.  Við komum að Reykjahlíð um kl 22.30.  Tjöldin voru reist við réttina þar sem var næði, heilsuðum upp á Reykhlíðunga og gerðum ferðaáætlun fyrir næsta dag.  Ég samdi um endurgjaldalaust lán á bátum til ferða út í Slútnes, enda var ég talinn til heimamanna eftir dvöl mína í sveitinni árin á undan.

21 ágúst.  Við Guðmundur fórum snemma á fætur, þurftum að lagfæra bílinn á fyrrum verkstæði mínu í Reykjahlíð.  Síðan skruppum við í Geiteyjarstönd til að kaupa glænýjan silung í matinn.  Kl 10.30 var farið í mjög langþráð bað í Grjótagjá. Gjáin er misgengi við jaðar helluhrauns sem hefur fallið yfir mikla sprungu og myndað hvelfingu yfir gjána sem var alveg lokuð til ársins 1937 þegar breskir jarðvísindamenn rifu grjót undan kantinum og opnaðist þá aðgengi að 41 gráðu heitu tandurhreinu vatni.  Heimamenn bættu um betur og opnuðu á öðrum stað 60 – 80 metrum sunnar þar sem er heldur minni hvefling.  Þá var svo komið að hægt var að bjóða upp á aðskilin kvenna- og karlaböð.  Eftir baðið var silungurinn snæddur, góðmeti beint úr netinu.  Kl. 14:00 var farið í Slútnes í dýrindis veðri, gróður og fuglalíf skoðað.  Um kl. 17.00 var farið upp á Námafjall, austur fyrir að Hverarönd og hverirnir skoðaðir.  Að því búnu felldum við tjöldin og pökkuðum saman. Ferðinni í Mývatnssveit lauk með kaffi og smurðu brauði með reyktum silungi í boði heimamanna.  Klukkan 19.00 lögðum við af stað, komun við á Brún þar sem nýtt lambakjöti beið okkar. Að skilnaði hylltum við Svafar með húrrahrópi.  Nú lá leið okkar í Vaglaskóg með viðkomu að Goðafossi.  Þegar komið var í Vaglaskóg fór mannskapurinn út að viðra sig og kom þá undrunarsvipur á hina sænsku Maj-Britt sem spurði hvað eigum við að gera hérna, „kíkja á skóginn“, svaraði Mary „men det er bara buskar här“ (það eru bara runnar hér) svaraði Maj-Britt.  Þetta fannst  Mary, minni spúsu algjör mógðun, næst stærsti skógur á Íslandi !!  Þetta skildi Mary betur þegar við fluttum til Svíþjóðar árið eftir.  Næsti áfangi var Akureyri, eftir stutt stopp í Vaglaskógi.  Vaðlaheiði með yfir 20 U-beygjum, flottu sólsetri og útsýni yfir Akureyri, líður seint úr minni.  Akureyri skartaði  sínu fegursta, enda einhverskonar töðugjaldahátíð í bænum. Eftir pysluát og flugeldaskot, héldum við fram í Öxnadal að leita okkur að tjaldstæði, sem við fundum við réttina hjá Þverá, eða  „þar sem háir hólar hálfan dalinn fylla“ eins og Jónas kvað.  Tjölduðum við nú í síðasta sinn í ferðinni skammt frá ánni í glaða tunglsljósi og ágætu veðri.  Halldóra hitaði kaffi sem var kærkomið og eitthvað meðlæti var í boði.   Við gengum til náða og sváfum vel við árniðinn.

22. ágúst.  Sverrir ræsti okkur um kl 7.00, enda áttum við langa ferð fyrir höndum til Reykjavíkur.  Komum við okkur saman um að fresta lambasteikinni vegna tímaskorts.  Veðrið um nóttina var gott, næstum heiðskýrt og 5-6 gráðu hiti, nokkuð áfall, sem tók fljótt af.  Sverrir sem vaknað hafði um sexleytið, var auðvitað búinn að kveikja á prímusunum og hita vatn þegar hann kallaði „ræs“.  Síðasta morgunmáltíðin var hefðbundin, tjöld og búnaður tekinn saman, svæðið hreinsað að venju og dótinu komið í bílinn. Eftir ýtarlega fræðslu um staðinn  var lagt af stað um kl. 10.00.  Siluðumst við áfram upp Öxnadal og yfir heiðina  sem vart var hægt að kalla veg, niður að Fremri-Kotum í Norðurárdal í Skagafirði þar sem ýtur og gröfur voru í viðgerðum á veginum, eftir hamfara skriðuföll sem höfðu orðið þar og valdið miklu tjóni á vegi og landi, einkum túni bænda, en fólk sakaði ekki.  Við hröðuðum okkur yfir Skagafjörðinn, en stönsuðum við minnisvarða Klettafjallaskáldins Stefáns G. Stefánssonar sem stendur neðst í Vatnskarði og horfir yfir Skagafjörð.  Nú bar fátt til tíðinda fyrr enn skammt sunnan Æsustaða í Langadal, þar sem bíllinn hætti allt í einu að láta af stjórn. Guðmundur snar hemlaði, en samt rann bíllinn 15 – 20 metra eftir malarveginum, tekur vinstri beygju út af, á nær engri ferð og rétt nær að reka framstuðarann í Willys jeppa sem þar stóð, meðan eigendurnir voru útí móa rétt hjá og horfðu á ósköpin. Reyndust þar vera sæmdarhjónin frá Hurðarbaki í Borgarfirði að borða nestið sitt.  Töldum við félagarnir möguleika á að slíkt gæti gerst væri einn á móti miilljón. Augljóslega ekki bráðfeigt fólk þarna á ferð.  Bilunin reyndist vera stýriskúla ( var veikur hlekkur í þessum bílum ), sem Guðmundur hafði skipt um í öryggisskini fyrir ferðina.  Auðvitað var Guðmundur með auka kúlu. Greinilega ekki alveg reynslulaus maður þarna á ferð. Þetta tafði okkur aðeins um tæpa klst. Til Blönduóss komum við um kl. 14.00. Þar höfðum við viðdvöl í  1 ½ klst, kirkjan o.fl skoðað, Ég og Mary heimsóttum föðurbróður minn, en Ingbjörg þurfti að fá jeppa til að skutla sér fram Langadal á árekstursstað. Hún hafði gleymt myndavél þar sem stelpurnar höfðu legið í sólbaði, meðan við strákarnir gerðum við bílinn.  Þetta skutl tók um klst. sem nýttist okkur hinum í þorpinu ( Blönduósi ).  Við lögðum nú glaðbeitt af stað  og ókum, að okkur þótti hinn langa og leiðinlega áfanga frá Blönduósi, upp á há Holtavörðuheiði, þar sem við stoppuðum, enda útsýnið ekki skammtað. Við blöstu, Langjökull, Ok, Eíríksjökull og Snjófjöllin með Tröllakirkju efst. Skammt fyrir ofan Fornahvamm var stansað til að svara mannlegum þörfum, kíkt í ber og haft gaman.  Áður en við lögðum af stað til Reykjavíkur ákváðum við í atkvæðagreiðslu að fara um Kaldadal.  Ókum við nú um uppsveitir Borgarfjarðar stönsuðum við Hraunfossa, Barnafoss og síðan að Húsafelli, þar sem Sverrir hljóp heim að bæ til að heilsa uppá húsbændur sem hann hafði verið í sveit hjá á árum áður. Á  lokaáfanganum yfir hinn grýtta Kaldadal fannst okkur Guðmundur vera orðinn óþreyjufullur að komast heim. Aksturinn var í harkalegra lagi, en ekki hreyfðust nýrun í neinum að ég best man.                            

23. ágúst Klukkan 2.00 að nóttu var komið að höfuðstöðvum Guðmundar Jónassonar í Þverholti 15a í Reykjavík, eftir ferð sem lengi verður minnast.  Því hef ég skráð þessa sögu svo hún glatist ekki.    

 

Farþegalisti: Yfir fundin nöfn farþega í ferðinni 

Birna Oddsdóttir

Guðmundur Jónasson, bifreiðastjóri

Hallbjörn Halldórsson

Halldóra Guðmundsdóttir, matmóðir

Hólmfríður Pálsdóttir

Ingibjörg Árnadóttir

Jón Fr. Sigvaldason

Mary A. Sigurjónsdóttir

Sigríður Árnadóttir

Sigurður

Svafar Björnsson

Sverrir  Scheving Thorsteinsson

Þorbjörg Þórðardóttir

Þóra Stefánsdóttir

Birgit (dönsk)

Hildegaard (þýsk)

Maj-Brit Person (sænsk)

 

Heimildir:

Akstursbók Guðmundar Jónassonar.

Dagbók Sverris Scheving Thorsteinssonar.

Þóra Stefánsdóttir.

Afkomendur Birnu og Sigríðar ferðafélagar.

Gunnar Guðmundsson, sonur Guðmundar Jónassonar.

Minningabrot undirritaðs.

Þóra Stefánsdóttir sá um söfnun og greiningu mynda.