Hrafntinna, hryssingur og fegurð á fjöllum.

Jóhann Kári í draumalandinu á rölti úr Hrafntinnuskeri niður í Álftavatn.
Jóhann Kári í draumalandinu á rölti úr Hrafntinnuskeri niður í Álftavatn.

Hvað eiga Þjóðleikhúsið og Höskuldsskáli sameiginlegt? Við þessari spurningu eru án vafa mörg ólík svör en líklega er það besta tengt því að bæði þessi hús fá drjúgan part af persónuleika sínum í hrafntinnu. Höskuldsskáli stendur í rösklega þúsund metra hæð yfir sjávarmáli við Hrafntinnusker sem er ekkert venjulegt sker, heldur ríflega ellefu hundruð metra hátt fjall á sjálfum Laugaveginum, einni þekktustu gönguleið á Íslandi.

Staðurinn sækir nafngiftina í hrafntinnu sem er svart eða mjög dökklitað gler sem myndast í eldgosi þar sem líparít kemur gjarnan við sögu. Hér á landi er mest af hrafntinnu í Hrafntinnuskeri og Hrafntinnuhrauni á Torfajökulssvæðinu. Fyrr á öldum var hrafntinna notuð í vopn en þekktasta notkun hennar á Íslandi á síðari tímum er líklega í mulningi utan á Þjóðleikhúsið sem Guðjón Samúelsson teiknaði. Reyndar hafði Guðjón dálæti á hrafntinnu eins og margir Íslendingar og því er hún líka einkennandi fyrir margt í Aðalbyggingu Háskóla Íslands. Þar eru tröppur við innganginn úr hrafntinnu og grænar hellur fyrir utan aðaldyrnar eru úr blöndu af grænu líparíti og hrafntinnu.

Höskuldsskáli í uppháhaldi

Höskuldsskáli er einn af fjölmörgum skálum Ferðafélagsins sem allir geta notað óháð aðild að félaginu. Jóhann Kári Ívarsson, rekstrarstjóri skála hjá Ferðafélaginu, þekkir vel alla þessa skála en líklega engan betur en Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri. Jóhann hóf störf hjá Ferðafélaginu sem skálavörður árið 2012 og vann lengst af í Hrafntinnuskeri áður en hann færði sig um set en hann starfar nú á skrifstofu FÍ í Reykjavík. Þar hefur hann umsjón með skálavörðunum og vaktaplönum þeirra ásamt dreifingu rekstrar- og söluvarnings til skálanna. Það gerir hann með góðu samstarfsfólki, þeim Stefáni Jökli Jakobssyni, Lilju Hrönn Guðmundsdóttur og Halldóri Hafdal Halldórssyni eða Dóra í Hornsbjargsvita eins og sumir kalla hann. 

„Systir mín vann sem skálavörður í fjöldamörg sumur í Langadal og því fannst mér alveg rakið að fylgja í hennar fótspor og sækja líka um sem skálavörður,“ segir Jóhann Kári. „Ég fékk starfið og það hentaði mér fullkomlega. Ég byrjaði tvö sumur í Landmannalaugum, og svo dró ég besta vin minn, Anders Rafn Sigþórsson, með mér upp í Hrafntinnusker þar sem við eyddum fimm sumrum saman. Það er án efa uppáhaldsskálinn minn, enda hafði ég oft heimsótt skálann í æsku með pabba sem var mikið tengdur Ferðafélaginu.“

Jóhann Kári segir að faðir sinn hafi eiginlega verið sjálfboðaliði hjá Ferðafélaginu með Höskuldsskála í Hrafntinnuskeri í fóstri ásamt góðum vinum sínum í meira en tvo áratugi. Að hans dómi er Höskuldsskáli í hálfgerðum sérflokki þegar horft er til sæluhúsa á Laugaveginum. Það liggi enginn almennilegur vegur að honum, eingöngu illfær slóði sem sé undir snjó langt fram á sumar. „Yfirleitt eru engir þarna á ferðinni nema fótgangandi og stundum trússarar á öflugum jeppum.“

Mikilvægir skálar á merkilegri leið

Yfir sumarið eru skálaverðir í nær öllum stærri skálum Ferðafélagsins sem standa við fjölfarnar gönguleiðir, eins og til dæmis á Laugaveginum. En hver er þessi vinsæli Laugavegur sem á sér alnafna í miðborg Reykjavík sem hefur í hartnær öld verið fjölfarnasta gatan í þéttbýli? 

Jú, Laugavegurinn er gönguleiðin á milli Landmannalauga og Þórsmerkur og fagnar því að vera á lista yfir fegurstu og bestu gönguleiðir í heimi. Landslagið er með ólíkindum á þessari leið, kjarrlendi og svartir sandar, litskrúðugt líparít, hrafntinnuhraun og sker, hvæsandi hverir, lækir, vötn og tindar. Þótt náttúran leiki auðvitað aðalhlutverkið í vinsældum Laugavegarins þá má líka þakka þær markvissri uppbyggingu Ferðafélagsins allt frá árinu 1975. Skálar Ferðafélagsins á Laugaveginum eru nú sex talsins: Hrafntinnusker auðvitað, Landmannalaugar, Álftavatn, Botnar á Emstrum, Langidalur í Þórsmörk og Hvanngil. Þessir skálar tryggja afdrep, öryggi og aðstöðu á veginum.

Svefnplássin í öllum þessum skálum, og í öðrum vinsælum skálum, eru umsetin svo mælt er með því að fólk panti gistingu og tryggi sér pláss með góðum fyrirvara. Þeir sem eru með staðfesta pöntun ganga alltaf fyrir og ef laust er í skálunum eru félagsmenn FÍ næstir í röðinni. Í stærstu skálunum er bæði rennandi vatn og vatnssalerni en í sumum þeim minni þarf að sækja vatn í nálæga læki og það þarf enginn að örvænta þótt notast þurfi við kamar á nokkrum stöðum. Það á einmitt við um Hrafntinnusker. Kamaraðstaða með vöskum er sambyggð húsinu en þó er ekki innangengt úr skálanum á kamarinn sem flestum finnst nú bara ágætt. Stór og rúmgóður trépallur liggur allt í kringum húsið og tengir skálann og kamarinn.

Miklar umbætur í Hrafntinnuskeri

„Þrátt fyrir harkalegar ytri aðstæður í Hrafntinnuskeri er skálinn þar í frábæru standi, þökk sé góðri vinnu sjálfboðaliða sem unnið hafa þrekvirki undanfarin tuttugu ár í vinnuferðum,“ segir Jóhann Kári.

„Náttúrulegur hver er steinsnar frá skálanum og byggðu fóstrar skálans hitaveitu sem hitar upp skálann með náttúrulegri hringrás. Svo eru sólarsellur sem sjá skálanum fyrir rafmagni, svo skálinn er mjög umhverfisvænn miðað við marga aðra skála á hálendinu.“

Jóhann Kári segir að skálinn hafi tekið miklum breytingum á þeim fimm árum sem þeir Anders dvöldu þar við skálavörslu. „Fyrsta sumarið var hvorki net- né símasamband, hvað þá ísskápur eða sturta. Maturinn var geymdur grafinn út í snjóskafli. Ekki var skálavarðarhús heldur lítið herbergi upp á lofti sem rúmaði tvö rúm með herkjum. Á fjögurra daga fresti hljóp annar okkar niður í Landmannalaugar eða á Álftavatn til að komast í sturtu. Svo var gengið til baka ofurhægt til að svitna nú ekki of mikið.“

Jóhann Kári segir að núna sé komið síma- og netsamband í Hrafntinnusker sem eru auðvitað umdeild gæði en mikið öryggisatriði. Þá er komið þar frábært skálavarðarhús með sturtu.

„Það var heilmikil bót fyrir okkur félagana að fá sturtuna en hafði það sennilega í för með sér að við bættum á okkur nokkrum kílóum vegna færri reglulegra sturtuferða niður í Landmannalaugar.“

Hryssingur og veðravíti

Jóhann Kári segir að oft sé blíða á fjöllum, en stundum hryssingur og í kringum Hrafntinnusker sé veðravíti sem margir telji erfiðasta legg Laugavegarins. „Stanslaus hækkun er úr Landmannalaugum, að mestu leyti í snjó meirihluta sumars. Oft á tíðum er þoka, rigning og rok, sem við köllum hina heilögu þrenningu þarna upp frá,“ segir Jóhann Kári og hlær. „Ekki er óalgengt að ferðamenn lendi í miklu basli með veðrið og í hrakningum og þá getur auðvitað skapast hætta,“ segir hann og verður alvarlegur í bragði.

Hálendisvakt björgunarsveitanna er staðsett í Landmannalaugum yfir sumarið og fer hún í ófáa björgunarleiðangra að sögn Jóhanns Kára til að hjálpa göngufólki sem villst hefur af gönguleiðinni, eða einfaldlega gefist upp.

„Það er fagurt á fjöllum, ekki síst í góðu veðri, en því miður þá átta margir ferðamenn sig ekki á því hversu fljótt veður getur breyst á þessum slóðum. Þótt sól sé og blíða í Landmannalaugum þegar ganga hefst getur verið þoka, og jafnvel snjókoma og stormur tveimur tímum síðar og 300 metrum ofar í nágrenni við Hrafntinnusker. Flestir ferðamenn eru til fyrirmyndar og hafa kynnt sér veður og aðstæður afar vel og rætt við skálaverði áður en lagt er í hann. Því miður eru samt enn of margir sem leggja í hann íklæddir gallabuxum og strigaskóm og eru ekki viðbúnir því sem framundar er.“

Mikið hús á mögnuðum stað

Höskuldsskáli tekur 52 í gistingu en hann er á tveimur hæðum. Á neðri hæð hússins er anddyri, tveir svefnsalir með kojum, langborðum og stólum og eldhús með rennandi köldu vatni, gashellum og öllum eldhúsáhöldum. Á efri hæðinni er eitt herbergi og tveir svefnsalir þar sem sofið er á dýnum á gólfinu. Kolagrill er úti á palli. Höskuldsskáli er læstur yfir vetrartímann eins og á við um alla skála félagsins. Í mörgum þeirra er þó hægt að panta gistingu og nálgast lykla að þeim á skrifstofu FÍ í Mörkinni 6.

Yfir sumarið er hægt að tjalda við Höskuldsskála eins og við flesta fjallaskála FÍ gegn gjaldi. Tjaldgestir þurfa að koma með eigin prímus og eldunaráhöld því þeir hafa ekki aðgang að eldunaraðstöðu skálanna. Daggestir þurfa svo að greiða aðstöðugjald þegar þeir dvelja á skálasvæðunum part úr degi og nýta sér aðstöðuna, svo sem nestisaðstöðu, grill og salerni.

Hugarró og lífsfylling

Það þarf ekki að koma neinum á óvart að Torfajökulssvæðið í nánd við Landmannalaugar og Hrafntinnusker sé efst á óskalistanum hjá Jóhanni Kára. „Þórsmörk er ekki langt þar á eftir,“ bætir hann snöggt við.

„Á síðustu sjö árum hef ég nýtt flestar frístundir frá skálavörslunni til að þvælast um allar mögulegar leiðir og alltaf er meira og meira að sjá. Grænihryggur í Sveinsgili, Jökulgilið sjálft og Háskerðingur eru í uppaháldi. En svo leynast mörg önnur náttúruundur mjög nálægt gönguleiðinni sjálfri. Fyrir mig er fátt betra en að vera einn í tilverunni og rölta um ósnortin víðernin ásamt mögulega nokkrum rollum. Það veitir mér algjöra hugarró og lífsfyllingu.“