Hringsjár við Drekagil og á Ytri-Súlu

Steypt í undirstöðu hringsjárinnar þ. 3. sept. 2022. Mynd: Ingvar Teitsson.
Steypt í undirstöðu hringsjárinnar þ. 3. sept. 2022. Mynd: Ingvar Teitsson.

Hringsjá við Drekagil

Ferðafélag Akureyrar (FFA) setti upp hringsjá við Drekagil austan Dyngjufjalla í september 2022. Hringsjáin var gjöf til FFA frá Ferðafélagi Íslands í tilefni af 80 ára afmæli FFA vorið 2016.

Gönguleiðanefnd FFA sá um gerð og uppsetningu hringsjárinnar.

Í ágúst 2020 voru frumdrög hringsjárinnar rissuð upp við Drekagil. Árni Ólafsson arkitekt færði síðan frumdrögin á stafrænt form. Textinn var fræstur í messing-skífu hjá Logoflex í Reykjavík. Að því loknu var skífan krómhúðuð. Grétar Grímsson véltæknifræðingur hannaði undirstöðu hringsjárinnar. Undirstaðan var smíðuð í Vélsmiðju Steindórs á Akureyri.

Hópur frá FFA steypti undirstöðu fyrir hringsjána og setti hana upp dagana 3. og 10. september 2022. Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands vígði síðan hringsjána síðdegis þ. 10. september 2022. Hringsjáin stendur uppi á allháum gjallhól er nefnist Faðirinn. Hóllinn er um 400 m norðaustur frá skálum FFA við Drekagil. Af hólnum er mikið útsýni til norðurs, austurs og suðausturs. Alls eru 25 örnefni á hringsjánni.

Hringsjáin frágengin þ. 10. sept. 2022. Mynd: Ingvar Teitsson.

 

Hringsjá á Ytri-Súlu

Ferðafélag Akureyrar (FFA) setti hringsjá (útsýnisskífu) á Ytri-Súlu, bæjarfjall Akureyrar, sumarið 2019. Hringsjáin var rissuð upp á tindi fjallsins einn góðviðrisdag í júlí 2018. Árni Ólafsson arkitekt færði grunnupplýsingarnar yfir á stafrænt form. Letrið var fræst í messing-skífu hjá Logoflex í Reykjavík. Að því loknu var skífan krómhúðuð. Grétar Grímsson véltæknifræðingur hannaði undirstöðu hringsjárinnar. Undirstaðan var smíðuð í Vélsmiðju Steindórs á Akureyri. Smári Sigurðsson hjá Björgunarsveitinni Súlum flutti hringsjána og undirstöðuna á vélsleða upp á tind Ytri-Súlu vorið 2019. Gönguhópur frá FFA steypti undirstöðuna niður í klöpp á tindi Ytri-Súlu í júlí 2019. Loks var hringsjáin vígð af Ásthildi Sturludóttur bæjarstjóra á Akureyri þ. 5. ágúst 2019. Á hringsjánni eru 47 örnefni en af tindi Ytri-Súlu (1.144 m) er frábært útsýni í allar áttir.

Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri Akureyrarbæjar vígir hringsjá á Ytri-Súlu. 

 

Ingvar Teitsson formaður Gönguleiðanefndar FFA við undirbúningsvinnu hringsjár  á Ytri- Súlu

Sjálfboðaliðar frá Ferðafélagi Akureyrar vinna að uppsetningu hringsjár á tindi Ytri-Súlú. 

Hringsjá á Ytri-Súlu komin upp (2019)  - Ljósmyndir: Ingvar Teitsson.