Hvað eru norðurljós?

Sævar Helgi Bragason
Sævar Helgi Bragason

Viltu skoða stjörnur með einum helsta vísinda- og stjörnumiðlara Íslands? Viltu vita af hverju stjörnur hafa ekki allar sama lit? Viltu vita hvers vegna norðurjósin loga á næsturhimni á Íslandi? Ef svo er þá skaltu grípa tækifærið þegar Sævar Helgi Bragason heldur sýningu á Vetrarbrautinni föstudagskvöldið 17. janúar.

„Við ætlum svo að skoða fyrirbæri í Vetrarbrautinni og utan hennar og ef við erum heppin þá sjáum við norðurljós,“ segir Sævar Helgi.

Norðurljósin eru magnað náttúrufyrirbrigði sem stærstur hluti mannkyns getur þó aldrei séð. Við Íslendingar njótum þeirra forréttinda að hafa þau nánast sem höfuðskraut á skýlausum vetrarnóttum. Vonandi verður það þannig föstudaginn 17. janúar. Menn hafa lengi velt vöngum yfir norðurljósunum en vísindamenn hafa á þeim mjög nákvæma skýringu.

Hvað eru norðurljós?

Svokallaður sólvindur er straumur hlaðinna agna frá sólinni. Þegar þessar agnir nálgast jörðina fara margar þeirra að hringsóla í segulsviði jarðarinnar og ferðast jafnframt milli segulskautanna tveggja, segir Vísindavefur Háskóla Íslands. Þegar þær rekast á lofthjúpinn í grennd við segulskautin verða norðurljósin og suðurljósin til.

Gangan föstudagskvöldið 17. janúar er sú fyrsta af sjö á þessu ári í samstarfi Ferðafélags barnanna og Háskólans undir yfirskriftinni „Með fróðleik í faranesti“. Ferðirnar eru hugsaðar fyrir alla fjölskylduna og aðgangur að þeim er ókeypis.

Sævar Helgi  í stjörnuhlutverki

Markmið stjörnu- og norðurljósagöngunnar er að hvetja fólk til þess að njóta náttúrunnar að vetri til og himingeimsins nú þegar veður geta orðið stillt og skilyrði verða til stjörnuskoðunar. Hinn sívinsæli Sævar Helgi Bragason mun lýsa því sem fyrri augu ber á kvöldhimninum en hann er fyrir löngu orðinn landsþekktur fyrir miðlun sína á undrum himingeimsins.  Hann hefur t.d. kennt stjörnufræði við góðan orðstír í Háskóla unga fólksins og í Háskólalestinni við Háskóla Íslands undanfarin ár, sem bæði eru verðlaunaverkefni á vegum skólans. 

Þá hefur Sævar Helgi farið mikinn í sjónvarpi og útvarpi og ritað frábærar bækur um hugðarefni sín. Flestar fjalla þær á einhvern hátt um geiminn en sú síðasta kom út um sl. jól og ber heitið Svarthol. Sævar Helgi er einnig höfundur hinnar gríðarlega vinsælu bókar Stjörnuskoðun fyrir alla fjölskylduna þar sem hann sendi þjóðina út að horfa til himins.

Sævar Helgi er til viðbótar þessu ritstjóri Stjörnufræðivefsins, kennir menntaskólanemum að meta stjörnur og plánetur, kennir grunnskólakrökkum og er spurningahöfundur í þáttaröðinni Gettu betur. Hann hefur auk þess hlotið ýmis verðlaun fyrir vísindamiðlun og stýrði í fyrra þáttaröð fyrir RÚV um lofslagsbreytingar sem vakti gríðarlega athygli. Óhætt að segja að þessi ungi snillingur komi víða við.

Norðurljósin eru mögnuð

Fáir hafa meiri ást á stjörnum himinhvolfsins hér á landi en Sævar Helgi og það kom berlega í ljós í sams konar göngu Háskólans og Ferðafélagsins í fyrra þar sem fjöldi fólks hlýddi á hann lýsa himinhvolfinu og norðurljósunum. Athafnamaðurinn og þjóðskáldið Einar Benediktsson á að hafa selt norðurljósin erlendum auðkýfingi og notað til þess persónutöfrana eina. Að þessari þjóðsögu hafa Íslendingar lengi kímt en nú er svo komið að norðurljósin eru raunverulega seld en til þess er beitt ýmsum flóknum markaðstækjum. Gríðarlegur fjöldi erlendra ferðamanna kemur hingað sérstaklega til að sjá norðurljósin og nú fáum við sem hér búum í borgarlandinu kjörið færi á að skoða þau með sérfræðingi.

Af hverju eru stjörnur mismunandi á litinn? 

Á föstudagskvöldið mun Sævar Helgi svara spurningum gesta, t.d. af hverju norðurljósin birtast hér, af hverju þau eru græn og jafnvel fjólublá, og af hverju stjörnur eru mismunandi á litinn. Við getum tekið smá forskot á sæluna og fengið Sævar Helga til að ljósta þessu upp með stjörnurnar:

„Stjörnurnar eru mismunandi á litinn vegna þess að þær eru misheitar. Heitustu stjörnurnar eru bláhvítar en köldustu rauðar, öfugt við það sem ætla mætti því í daglegu lífi notum við rautt fyrir heitt og blátt fyrir kalt. Bláu og bláhvítu stjörnurnar eru allt að 50.000°C heitar, tíu sinnum heitari en sólin okkar, en rauðu stjörnurnar eru ekki nema um 3500°C,“ svarar Sævar að bragði.

„Svo mæli ég með því að fólk komi með handsjónauka því maður sér ansi margt með slíkum sjónaukum, til dæmis Andrómeduvetrarbrautina og Sverðþokuna í Óríon.“

Hist í Mörkinni og ekið inn Kaldársel

Við upphaf ferðar verður hist við skrifstofu Ferðafélags Íslands í Mörkinni 6 kl. 20 þaðan sem ekið verður að Kaldárseli. Lagt er af stað frá nýju bílastæði við enda Kaldárselsvegar þaðan sem gengið er á Helgafell. Þeir sem vilja geta hitt hópinn þar um kl. 20:20.

Áætlað er að ferðin taki um 2 til 3 klukkustundir. Það er tilvalið fyrir fjölskylduna að skella sér í hressandi göngu og fræðast um leið um himintunglin. Nauðsynlegt er að klæða sig vel og gott er að taka með nesti og heitt á brúsa.

Ferðafélag Íslands og Háskólinn hafa undanfarin átta ár staðið saman að göngu- og hjólaferðum undir yfirskriftinni „Með fróðleik í fararnesti“. Reynsla og þekking fararstjóra Ferðafélagsins og þekking kennara og vísindamanna Háskólans blandast saman í áhugaverðum ferðum um höfuðborgarsvæðið og næsta nágrenni þess.

Þátttaka er ókeypis eins og áður sagði og allir eru velkomnir. Ef ekki viðrar til himinskoðunar þennan dag verður ferðinni frestað þar til góðar aðstæður skapast og verður það auglýst á facebook og heimasíðu HÍ og FÍ. Hér má sjá spá Veðurstofunnar fyrir möguleika á sjá norðurljósin: Norðurljósaspá