Landvættur, Hálfur Landvættur og Ungvættur

Opnað verður fyrir skráningu í FÍ Landvættaverkefnið þann 9. september en nú er í fyrsta sinn, samhliða Landvættaæfingahópnum, boðið upp á þátttöku í æfingahópi sem stefnir á að ljúka hálfum Landvætti á árinu 2020. Í því felst að lokið er við helming þeirrar vegalengdar sem hver grein útheimtir til að ljúka Landvættaáskoruninni. Þessi valkostur er hugsaður fyrir þá sem eru að koma sér af stað í fjölbreyttri hreyfingu úti í náttúrunni og þá sem eru að hefja sinn íþróttaferil, að byrja að æfa eftir hlé eða það fólk sem hefur æft eina íþróttagrein en langar að læra meira og útvíkka getuna. Þetta æfingaverkefni er einnig tilvalið fyrir þá sem vilja æfa sig upp í heilan Landvætt á þarnæsta ári, 2021.

Landvættaþrautirnar fjórar eru eftirfarandi:

• Fossavatnsgangan: 50 km skíðaganga. 18. apríl, 2020.
• Bláalónsþrautin: 60 km fjallahjól. 6. júní, 2020.
• Þorvaldsdalsskokkið: 25 km fjallahlaup. 4. júlí, 2020 eða Jökulsárhlaupið: 33 km. 8. ágúst, 2020.
• Urriðavatnssundið: 2,5 km útisund. 25. júlí, 2020.

Hóparnir æfa saman úti í náttúrunni á einni stórri æfingu í hverri viku, oftast annað hvort á laugardegi/sunnudegi eða þriðjudegi/fimmtudegi. Þess á milli er æft eftir  fyrirfram ákveðinni æfingaáætlun.

Verkefnin hefjast á svokölluðum Busadegi, æfinga- og fyrirlestrardegi þar sem línur eru lagðar, farið í gegnum þrautirnar fjórar og þann útbúnað sem til þarf. Fremstu sérfræðingar landsins í hverri þraut fyrir sig stýra nokkrum æfingum og fara nánar í tæknileg atriði, líkamsbeitingu og búnað. Að auki fara hóparnir fjórum sinnum í nokkurs konar æfingabúðir yfir helgi, þar sem sjónum er beint að einni eða tveimur þrautum á tveimur dögum.

Jafnframt er boðið uppá æfingaverkefnið FÍ Ungvættur en það er hugsað fyrir krakka á aldrinum 12 til 18 ára sem taka minnstu vegalengdirnar í öllum Landvættaþrautunum. Miðað er við að á bak við hvern FÍ Ungvætt sé aðstandandi og/eða ábyrgðamaður sem fylgir viðkomandi unglingi í gegnum þrautirnar, annað hvort á hliðarlínunni eða sem þátttakandi í FÍ Landvætti eða FÍ hálfum Landvætti.

Rafræn skráning hefst, sem fyrr segir, þann 9. september hér á vefsíðu Ferðafélagsins en kynningarfundir verða haldnir í sal FÍ, Mörkinni 6, 8. október. Öll Landvættaverkefnin standa í 9 mánuði.