Laugavegurinn vinsæll hjá fjölskyldum

Frá Laugaveginum fyrir nokkrum dögum. 
Mynd: Páll Guðmundsson.
Frá Laugaveginum fyrir nokkrum dögum.
Mynd: Páll Guðmundsson.

Íslendingar hafa svo sannarlega tekið við sér og nýtt sumarið til að njóta þess sem landið hefur upp á að bjóða. Skálaverðir hjá Ferðafélaginu hafa haft orð á því að sjaldan eða aldrei hafi þeir hitt jafn marga Íslendinga í skálum félagsins og að margir séu að koma í fyrsta sinn á þessa staði.

„Það er virkilega gaman að sjá hversu margir Íslendingar eru að ganga Laugaveginn og þá sérstaklega fjölskyldur. Skálaverðir hafa tekið sérstaklega eftir því hversu margir duglegir krakkar eru að ganga þessa leið með foreldrum sínum“ segir Jóhann Kári Ívarsson, rekstrarstjóri skála hjá Ferðafélaginu.

Hann segir krakka eiga heilmikið erindi á Laugaveginn, ekkert síður en fullorðnir. „Það eru helst þrjú atriði sem gott er að hafa í huga þegar ferðast er með börn: að krökkunum sé ekki kalt, að þau sé ekki svöng og svo það mikilvægasta að þeim leiðist ekki“ segir Jóhann og bætir við að ef þessi þrjú atriði séu í lagi þá sé Laugavegurinn ævintýraheimur fyrir krakka sem þau virkilega njóti. Dagleiðirnar séu passlega langar, aðstaðan í skálunum sé góð og þar ríki notaleg stemning eftir göngu hvers dags.

Margir muna þá tíð þegar fólk hópaðist inn í Langadal í Þórsmörk til að skemmta sér fram á nótt en það er liðin tíð að sögn Jóhanns. Nú er það fjölskyldustemningin sem ræður ríkjum. 

En hversu lengi er hægt að ganga þessa fallegu leið? Nú þegar líður á seinni hluta sumarsins og rökkva tekur á kvöldin gætu margir talið að Laugavegurinn væri út úr myndinni. En því fer fjarri segir Jóhann. „Eftir verslunarmannahelgina fer haustið hægt og rólega að segja til sín en þá er einmitt kjörið tækifæri tili að njóta leiðarinnar í haustlitunum og upplifa stjörnubjartar nætur og jafnvel norðurljós. En það er mjög mikilvægt að fylgjast vel með haustlægðunum þar sem þær geta verið krappar.“