Léttar gönguferðir fyrir eldri og heldri á vegum F.Í.

Ferðafélag Ísland hefur verið með léttar gönguferðir fyrir eldri og heldri félaga bæði vor og haust síðastliðin þrjú ár.

Eftir erfiðan vetur og snjóþungan eru margir í þörf fyrir að fara út og viðra sig og eru göngur í góðum félagsskap góð leið og hvatning til þess.

Þetta er í fimmta sinn sem Ólöf Sigurðardóttir farastjóri Ferðafélags Íslands leiðir göngurnar en þær eru tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum kl. 11:00. Gengið er í um eina og hálfa klukkustund eða 3-5 km og gönguhraða er stillt í hóf svo sem flestir geti verið með.

Í vor hefjast göngurnar 17. apríl og enda 15. júní. Aðallega eru göngurnar á Höfuðborgarsvæðinu en einnig eru einstakar göngur í nágranna-sveitafélögunum.

Ólöf er til frásagnar í ferðunum, t.d. ástæðuna fyrir því að gamalt hús er í nýlegu hverfi eða nýtt hús í eldra hverfi, og veltir fyrir sér gömlum sveitabæjum í austurborginni fyrr og nú. Einnig er gengið um skógræktarsvæði og græna reiti í borginni sem blasa kannski ekki við og margt fleira.

Þátttaka hefur verið mjög góð en nauðsynlegt er að skrá sig í verkefnið hjá fi@fi.is. Öllum er frjáls þátttaka en það kostar sem svarar félagsgjaldi FÍ 2023 eða 8500.-kr.

Sjá einnig vefsíðu Ferðafélagsins: FÍ Gönguferðir eldri og heldri | Ferðafélag Íslands (fi.is).

Gott er að vera í góðum gönguskóm og í viðeigandi útivistarfatnaði og svo er það góða skapið og göngugleðin. Koma svo 😊