Líf og fjör á fjöllum - fjölbreytt starf skálavarða FÍ

Skálaverðir FÍ eru þekktir fyrir vasklega framgöngu enda ýmsu vanir. Verkefnin sem þeir fást við eru fjölbreytt og krefjast útsjónarsemi og þrautsegju af þeirra hálfu.  Á vorin eru haldin námskeið sem undirbúa skálaverði fyrir verkefni sumarsins en einnig eru eldri og reyndari skálaverðir duglegir að miðla sinni reynslu áfram til þeirra sem nýrri eru.

Mikið að gera og líf og fjör á fjöllum
Veðrið í sumar hefur verið talsvert betra en hið úrkomumikla sumar 2018 og fjöldi ferðamanna hefur verið eftir því.  Skálaverðir hafa í nógu að snúast og fjölmörg og síbreytileg verkefni sem mæta þeim sem þeir hafa leyst með prýði.

Farartæki föst í ám
Að keyra yfir jökulár er vandasamt og geta aðstæður breyst með skömmum fyrirvara. Það er mikilvægt að afla sér upplýsinga áður en lagt er af stað í ferðalagið, sér í lagi ef vafi leikur á um aðstæður. Það er ekki einungis úrkoma sem hefur áhrif á vöðin heldur hafa hlýindi einnig áhrif á vatnavexti í jökulám og getur verið talsverð breyting á með skömmum fyrirvara. Þó svo að flestir komist klakklaust yfir árnar koma oft upp vandamál, hvort sem um er að ræða vanmat á aðstæðum, að rangt sé farið í árnar eða hreinlega að upp komi bilun í farartæki.  Skálaverðir FÍ í Þórsmörk hafa gegnt mikilvægu hlutverki við að hjálpa fólki sem hefur lent í vandræðum við árnar. 


Fjölbreytt verkefni við misjafnar aðstæður
Veðurfar á hálendinu getur breyst á svipstundu og hafa skálaverðir FÍ marga fjöruna sopið í þeim efnum. Ferðamenn eru misvel búnir og hafa sumir litla sem enga reynslu af hálendisferðum eða hafa ekki kynnt sér nægilega vel aðstæður. Starf skálavarða felst m.a. í fræðslu til ferðamanna og að trygga öryggi þeirra.  

Búnaður ferðamanna
Sem betur fer er meirihluti ferðamanna nokkuð vel búinn og upplýstur um aðstæðurnar. Kemur þó fyrir að búnaður gefi sig eins og sést m.a. á einni myndinni hér að neðan en þá  þurfti að aðstoða ferðamann við að teipa saman tæpan skófatnað svo hann gæti haldið áfram för sinni.

Skálaverðir eru þúsundþjalasmiðir
Þegar næsti smiður eða viðgerðamaður er í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð þarf oft að taka til hendinni sjálfur. Hjá FÍ starfar frábært fólk þar sem allir hjálpast að. Verkefnin eru æði mörg, allt frá móttöku gesta, þrifum, smíðavinnu og sálgæslu og alls þar á milli.