Meistaramánuður Ferðafélags Íslands

Það geta allir orðið meistarar
Það geta allir orðið meistarar

Meistaramánuður Ferðafélags Íslands
VILTU VERÐA MEISTARI?

Ferðafélag Íslands​ efnir til heilsuátaks í febrúar og mars fyrir þá sem vilja koma sér af stað og byrja að ganga sér til heilsubótar eftir að hafa glímt við kyrrstöðu eða veikindi.

Göngurnar eru að mestu á jafnsléttu og farið á rólegum hraða sem hentar öllum. Markmiðið er að fólk geti með æfingum náð heilsubót og styrk til að takast á við stærri verkefni.

Gengið verður tvisvar í viku, á mánudögum og fimmtudögum.

Fyrsta gangan er á mánudaginn 4. febrúar kl. 18. Gengið verður um Elliðaárdal, ​svokallaðan ​Stífluhring. ​Mæting er kl. 17:50 við ​Árbæjarlaug​. Reiknað er með að göngu ljúki kl. 20.

Á ​fimmtudaginn 7. febrúar​ verður gengið frá Bauhaus. Mæting er kl. 17:50 og haldið af stað kl. 18. Gengið verður eftir stígum inn í skógræktina í Mosfellsbæ og baka aftur. Um sex kílómetra leið. Göngunni lýkur kl. 20. Næstu vikurnar verða göngurnar á mánudögum og fimmtudögum frá þessum stöðum og á þessum tíma.

Átakið er öllum opið og þátttakendum að kostnaðarlausu. Því lýkur um miðjan mars. Þátttakendur mæta í göngu- og útivistarfatnaði og í gönguskóm. Gott er að hafa hálkubrodda ef á þarf að halda. Ekki þarf að skrá sig í verkefnið, bara að mæta. Um að gera að hringja í vin líka.

Æfingakerfið Haukurinn er fastur liður auk fræðslu og skemmtunar.

Stóra spurningin er: Viltu verða meistari?

Umsjónarmenn göngunnar eru ​Ólafur Sveinsson​ og ​Reynir Traustason sem báðir hafa stýrt Fyrsta skrefi og Næsta skrefi Ferðafélags Íslands frá stofnun þeirra hópa.