Mikilvægar framkvæmdir í Hornbjargsvita

Ferðafélag Íslands rekur gistingu Hornbjargsvita á sumrin líkt og félagið gerir annarsstaðar á landinu. Mannvirki eru komið til ára sinna og um þessar mundir standa yfir miklar framkvæmdir á svæðinu.

Bætt öryggi og náttúruvernd
„Ferðafélag Íslands hlaut styrk úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem hefur gert félaginu kleift að ráðst í framkvæmdir á svæðinu. Í sumar verður verður unnið að bættu öryggi ferðamanna og vernda náttúru með því að smíða vetrarklósett, lagfæra um 500m langa fallpípu að vatnsrafstöð, endursmíða stiga, togbraut og lagfæra gangráð vatnsvirkjunar.   Verkefnið mun bæta aðgengi og auka öryggi þeirra ferðamanna sem heimsækja þennan sérstaka og áhugaverða stað,“ segir Halldór Hafdal Halldórsson vita- og skálavörður í Hornbjargsvita.  Fyrrnefndur styrkur er veittur til að bæta öryggi ferðamanna og vernda náttúru með því að smíða vetrarklósett, lagfæra fallpípu að vatnsrafstöð, endursmíða fúinn og hættulegan stiga og togbraut og lagfæra gangráð vatnsvirkjunar og fá þannig stöðuga spennu og tíðni.   Verkefnið mun bæta aðgengi og auka öryggi þeirra ferðamanna sem heimsækja þennan sérstaka og áhugaverða stað.  

Hornbjargsviti á sína merkilega sögu
Halldór segir stuttlega frá sögu Hornbjargsvita: „Vitamálastofnun kaupir landið og reisir Hornbjargsvita árið 1930. Byggingaframkvæmdin var mjög stórtæk á sínum tíma, um 60-70 manns voru við störf við að reisa vitann. Allt efnið var flutt í höndunum, meðal annars var allur sandur sóttur á bátum í Hornvík þar sem honum var mokað í strigapoka og borið um borð í bátinn, híft upp með handafli úr víkinni um 15-20metra og loks ekið á hjólbörum eða borið á bakinu að byggingarstað, um 300 metra. Það er ljóst að bygging Hornbjargsvita hefur verið mikið þrekvirki.“

Verkefnið er búið að vera tæpt ár í undirbúningi - margar hendur vinna gott verk
Halldór segir nær stöðugan straum af góðu fólki í Hornbjargsvita undanfarið að leggja hönd á plóg: „Verkefnið hófst fyrir um ári síðan þegar stofnuð var undirbúningsnefnd og hafði hún umsjón með skipulagningu á verkefninu, snemma vors var farið í Vitann í undirbúningsvinnu fyrir framkvæmdir. Efnið í framkvæmdina var svo flutt með Varðskipinu Tý. Í kjölfarið kom vinnuhópur á vegum FÍ. Svo fengdum við þyrluteymi frá Þyrluþjónustunni að flytja efnið úr fjörunni upp í fjall og nú eru við hér ágætur hópur ásamt rafvirkjum að vinna í virkjanamálum, þannig að þetta er búið að vera nær stöðug umferð af góðu fólki að leggja hönd á plóg,“ segir Halldór.

Fimmtíu og fimm ferðir með gúmmíbátum með um 16 tonn af varningi
„Við vorum með alls um 16 tonn af varningi, byggingarefni og annað sem nauðsynlegt er í þessa framkvæmd sem var flutt vestur með varðskipinu Tý og upphaflega átti að nota þyrlu til að flytja þetta í land en hún var ekki tiltæk og því þurfti að flytja allt efnið á gúmmíbátum í land, það voru sléttar 55 ferðir og ófá handtökin. Einar H. Valsson skipherra á varðskipinu Tý og áhafnarmeðlimir er fagfólk fram í fingurgóma og leysti þetta verkefni með glans,“ segir Halldór.

Yfir 30 manns í mat
„Oddný Þorbergsdóttir ráðskona hefur staðið í ströngu undanfarna daga, nú fyrr í vikunni vorum við með yfir 30 manns í mat, en Oddný og Máni Gautason hafa verið í þjálfun hér sem skálaverðir og hafa staðið sig vel. Við flytjum vistir með okkur í upphafi sumars og auk þess sem við borðum mikið af fiski,“ segir Halldór ennfremur.

Íslendingar meirihluti gesta í vitann
Meirihluti gesta í Hornbjargsvita eru Íslendingar segir Halldór, „lang stærstur hluti gesta sem við fáum hingað í Hornbjargsvita eru Íslendingar, óhætt að segja að íslendingar séu c.a. 9 af hverjum 10. Nú fer tímabilið að byrja og stendur fram yfir verlsunarmannahelgi.“

Mikið unnið og lítið sofið
Halldór segir menn hafa lítið sofið undanfarna daga, góður hópur fólks hefur verið í Hornbjargsvita nú í um 10 daga við vinnu og dagarnir mjög langir, „Undanfarna 10 daga höfum við kannski sofið út einu sinni, en annars er lítið um svefn - það er mikið verk framundan hjá okkur sem þarf að vinnast hratt og vel. Allir sem hafa komið að þessu verki hafa staðið sig með prýði og verkið hefur gengið hratt og vel,“ segir Halldór að lokum.