Náttúruvernd og FÍ haldast í hendur

Veðrið er eitt helsta umræðuefni Íslendinga enda leggur það grunninn að því hvernig við upplifum allt í umhverfinu – þetta á auðvitað við um gönguferðir eins og allt annað í lífinu. Við finnum veðrið ekki bara á hörundinu – við finnum það í sálinni. Það hefur líka veruleg áhrif á afdrif alls í lífríkinu og er undirstaða velgengni okkar mannanna á mjög mörgum sviðum. Veðrið er kyrrt og kolvitlaust og allt þar á milli. Svipmót þess og litir eru nánast án takmarkana. Íslendingar hafa lifað við allskyns óstöðugleika í gegnum aldirnar og veðrið á þar drjúgan hlut enda er veðrið eitt af því sem enginn hefur gengið að sem vísu.

 

Klakaböndin strekkjast

yfir hafflötinn

 

sólin ýfir upp nýjan dag

svo matar í

dauðahvít fjöll

í vetrarþreyttu landi

 

Svona yrkir skáldkonan Gerður Kristný þegar hún flytur okkur ísfréttir. Veðrið er nefnilega ekki bara undirspilið í veruleikanum – það er líka sviðið í afurðum skáldanna og þar endurspeglar veðrið líka oft sálarástand. Síðasttalda orðið er úr smiðju þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Urmull orða er til í íslensku sem lýsa veðri býsna nákvæmlega eins og kafaldsbylur, svartalogn, útsynningsgaddur, hnúkaþeyr og þokusúld. Samt þótti skáldinu Jónasi ekki nóg til í bankanum og bætti um betur með orðum eins og austankul, fannburður, álandsvindur, sjólag, staðvindur, stjörnbjartur og veðurbreyting.

Elín Björk Jónasdóttir er í hópi þeirra sem hafa veðrið nánast á heilanum. Jónas Hallgrímsson smíðaði einmitt orðið veðurfræði handa henni og öllum þeim sem sökum starfs síns huga sífellt að veðri og gera veðurspár fyrir okkur hin. Elín Björk er nefnilega deildarstjóri veðurspár og náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofu Íslands og mjög mörg kannast reyndar við hana af sjónvarpsskjánum á RUV þar sem hún spáði fyrir um veðrið hjá okkur um tíma.

Veðurfræðingur í stjórn FÍ

Elín Björk Jónasdóttir er ekki bara veðurfræðingur því hún er líka nýr stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands. Þegar ný stjórn var kjörin í FÍ í vor voru tvær nýjar konur kosnar til áhrifa, Elín Björk og Salvör Nordal, umboðsmaður barna og prófessor í siðfræði við HÍ. Þá var líka kjörinn nýr forseti sem einnig er kona, Ólöf Kristín Sivertsen lýðheilsufræðingur. Þá er kona einnig varaforseti en því embætti gegnir Sigrún Valbergsdóttir. Fullyrða má að þessar jákvæðu breytingar í stjórn FÍ boði nýja tíma.

„Ég held að það hljóti alltaf að verða breytingar með nýjum forseta og nýju fólki,“ segir Elín Björk í stuttu samtali þar sem furðumargt kemur við sögu og líka veðrið eins og í nánast öllum samtölum fólks hér á landinu kalda.

 

 

„Ferðafélagið er tæplega aldar gamalt og mikilvægt að halda í við breytingar í samfélaginu. Þótt það sé ekki komin mikil reynsla á veru mína í stjórn þá finnst mér frábært að sjá aðeins í innra starfið og skipulagið, skilja hvernig félagið er rekið og ég hlakka til þess að komast betur inn í hlutina í haust og vetur,“ segir nýja stjórnarkonan sem hefur samt þekkt Ferðafélag Íslands býsna lengi. Hún erfði ferðaástina frá báðum foreldrum sínum, ömmum og afa og fór í sína fyrstu ferð á vegum FÍ einungis sex ára gömul.

 

„Já, ég var á sjöunda ári. Þá fórum við fjölskyldan, ásamt afa mínum, frændfólki og erlendum gestum í ferð á Hornstrandir. Siglt var frá Ísafirði með Fagranesinu og slegið upp tjaldbúðum í Aðalvík að Látrum. Ég var eina barnið í ferðinni, en það var ekkert mál, ég gekk upp á Straumsnesfjall og yfir á Hesteyri og þræddi allar leiðirnar sem fararstjórarnir leiddu okkur um. Elín amma mín og nafna hafði dáið í ágúst árið áður, en Hornstrandir voru henni alltaf mjög hugleiknar, og ég held hreinlega að ég hafi erft þá ást með nafninu.“

 

Lesið í veðrið og fleira

Þegar Elín Björk var tæplega sjö ára var hún kannski ekki mikið að lesa í veðrið en þá voru mælikvarðarnir í húðinni og tilfinningin úrskurðaði oftast um hvort þörf væri á húfu og vettlingum. Áhugverðu skýin voru mest bólstrar á himni sem bjuggu til myndir sem fóðruðu ímyndunaraaflið.

 

En núna eru breyttir tímar. Það er stundum sagt að prófgráða í bókmenntum taki að hluta af manni gleðina að njóta textans en það er auðvitað umdeilt. Það má líklega segja það sama um veðurfræðingana og skýin. Þau eru í raun oft gríðarlegt skart á himni en geta nefnilega líka verið fyrirboði um veður og vind. Elín Björk les vissulega í skýin og landið til að njóta og auðvitað líka til að spá í veðrið umfram okkur hin – en hún er líka með nýjustu tækni og vísindi í farangrinum.

 

„Ég fékk frábæra Kestrel veðurstöð í afmælisgjöf fyrir nokkrum árum og tek hana gjarnan með mér í ferðir, aðallega því það er gaman að taka veðrið á ferðum og velta allskyns hlutum eins og skýjum fyrir sér, en oftast skoða ég spána bara vel áður en ég fer, og læt svo bara ráðast. En ég virði kannski landslagið sem veðrið býr til öðruvísi fyrir mér en aðrir. Mér finnst reyndar ekkert endilega verra að vera í þoku og logni en í fullri fjallasýn.“

 

Þetta viðhorf Elínar Bjarkar er auðvitað frábært fyrir Íslending og gott veganesti fyrir göngu á Straumensfjall á Hornströndum þar sem fullyrt er að þokan eigi heimilsfesti um það bil þrjú hundruð daga á ári. En Elín Björk gekk víðar með foreldrum sínum í æsku en þangað og svo líka upp á eigin spýtur þegar hún varð unglingur.

 

„Síðan tók reyndar við alllangt hlé, en þegar drengirnir mínir voru komnir á svipaðan aldur og ég var þegar ég fór í fyrstu ferðina mína á Straumnesfjall byrjuðum við að fara í ferðir með Ferðafélagi barnanna sem er angi innan Ferðafélag Íslands. Fyrst í aðventuferð í Þórsmörk, og síðan í fjölskyldugöngu um Laugaveginn,“ segir Elín Björk sem hefur alla tíð unnað náttúrunni og talið hana eitt helsta aðdráttaraflið í sínum gönguferðum.

 

 

 

FÍ og náttúruvernd hafa alltaf haldist í hendur

Elín Björk segir að áhuginn á náttúrunni hafi komið með móðurmjólkinni, miklum ferðalögum um landið þegar hún var lítil og uppeldi þar sem virðing var borin fyrir náttúrunni og náttúruöflunum.

 

„Óspillt náttúra og víðerni eru að verða meðal allra dýrmætustu auðlinda okkar. Það er alfarið okkar skylda að fara vel með jörðina og skila henni í betra standi til næstu kynslóða en við tókum við henni.“

 

Elín Björk segir að Ferðafélagið og náttúruvernd hafi alltaf gengið saman hönd í hönd sem skipti samfélagið mjög miklu máli, „en einnig held ég að félagið skipti miklu máli þegar kemur að því að tryggja landsmönnum og erlendum gestum öryggi í ferðum um fáfarnar slóðir.“

 

Hún segir að félagið gefi fólki færi á að kynnast landinu á þann hátt sem gönguferðir í óbyggðum geti einar. „Að þekkja landið okkar er hornsteinn þess að fara vel með það, og þar er Ferðafélag Íslands gríðarlega mikilvægt. Ferðafélagið hefur alla tíð unnið að því að gera ferðamennsku sjálfbæra, taka ekki meira en jörðin getur boðið og opnað á ferðalög til hópa fólks sem færi ekki nema með leiðsögn um óbyggðir.“

 

 

Eignast ný uppáhaldssvæði á hverju ári

Það kemur varla nokkrum á óvart sem þekkja Elínu Björk að Garðskaginn sé í miklu uppáhaldi hjá henni - en hún ólst einmitt upp í Garðinum og gekk þar í grunnskóla.

 

„Þegar ég var lítil var ótrúlega lítið fjallað um náttúruna og jarðfræði Reykjanessskagans sem nú til dags þykir auðvitað skrýtið.“ Hér vísar veðurfræðingurinn auðvitað til þess að þarna hefur núna gosið í þrígang með stuttu millibili auk þess sem jarðskjálftar hafa angrað íbúa skagans.

 

Þótt Garðskaginn, Hornstrandir og Þórsmörk séu svæði sem komi gjarnan fyrst koma upp í hugann hjá Elínu Björk, þá eignast hún eiginlega ný uppáhaldssvæði á hverju ári að eigin sögn. Hún er nefnilega afar dugleg að ganga og segist fara nýjar slóðir á hverju ári.

 

 

Eftir að grunnskóla lauk á Suðurnesjum fór Elín Björk norður yfir heiðar í Menntaskólann á Akureyri. Þótt hún hafi ekki verið mjög virk í fjallamennsku nyrðra fór hún í afdrifaríkan veðurfræðiáfanga hjá Jónasi Helgasyni.

 

„Hann var líka jarðfræðikennarinn minn og leiddi alla nýnema um ævintýraheima Mývatnssveitar.“

 

Leið Elínar Bjarkar lá svo til Oklahoma í Bandaríkjunum í veðurfræðinám og seinna til Oslóar, en síðan hún flutti heim árið 2004 hefur hún búið í Reykjavík. Hún segist njóta náttúrunnar í nágrenni höfuðborgarinnar á hverjum einasta degi og til dæmis bjóði fjöllin umhverfis borgina upp á afar góða möguleika til hreyfingar. Dags daglega fari hún líka í gegnum Öskjuhlíðina og finni að það hafi mikil áhrif á sig ef hún aki til vinnu frekar en að hjóla eða ganga.

 

Náttúran nýtur ekki nægilega oft vafans

Elín Björk fær mikið út úr því að ganga og lætur veðrið sjaldnast hamla sér. Það þarf alls ekki allt að vera í sumarsins algræna skrúði eins og Margrét Jónsdóttir orti, hvað þá með blikandi norðljósa trafi.

 

„Fyrir mig jafnast það eitt að komast í eina nokkurra daga gönguferð á hverju sumri á við margra daga frí... orkulega séð. Ró á fjöllum er ólík ró á öllum öðrum stöðum. Það er sennilega vegna þess að allt er svo einfalt – það er bara ákveðinn matur, ákveðin föt, ákveðið gistirými og lítið hægt að velta sér upp úr hlutunum,“ segir Elín Björk sem gáir til veðurs sem var einu sinni af þeirri stærðargráðu að mennirnir töldu sig ekki geta haft áhrif á það. Núna höfum við hins vegar breytt fari og hraða vinda með mannvirkjum og vísindamenn sýna fram á það í rannsóknum að mjög alvarlegar sviptingar í loftslagi helgist af gjörðum okkar.

 

 

„Náttúran nýtur ekki nægilega oft vafans,“ segir Elín Björk. „Við verðum að gera mikið betur í að tryggja góða umgengni, miðlun þekkingar og aga í umgengni okkar við náttúruna. Það er sama hvar okkur ber niður í lífhvolfinu, það eru allst staðar hættumerki og þau ber að taka alvarlega. Hér duga engin vettlingatök lengur.“