Ný þáttaröð af Fjallaskálum Íslands á Hringbraut

Fjallaskálar Íslands, þáttaröð á Hrinbraut í umsjón Sigmundar Ernis Rúnarssonar fjallar um fjallaskála á hálendi Íslands, í óbyggðum eða á afskekktum stöðum. 
Myndin er af skálasvæði FÍ við Álftavatn að Fjallabaki. Myndina tók Árni Tryggvason.
Fjallaskálar Íslands, þáttaröð á Hrinbraut í umsjón Sigmundar Ernis Rúnarssonar fjallar um fjallaskála á hálendi Íslands, í óbyggðum eða á afskekktum stöðum.
Myndin er af skálasvæði FÍ við Álftavatn að Fjallabaki. Myndina tók Árni Tryggvason.

Ný sex þátta röð af Fjallaskálum Íslands hefur göngu sína á sjónvarpsstöðinni Hringbraut í kvöld klukkan 21:30 í umsjá Sigmundar Ernis Rúnarssonar, en að þessu sinni ferðast hann bæði um vestan- og austanvert landið og yfir það þvert og endilangt. Þættirnir eru unnir í samvinnu við Ferðafélag Íslands og Fjallakofann.

Skálarnir sem eru sóttir heim að þessu sinni eru í Norðurfirði og Látravík á Ströndum, á Víknaslóðum fyrir austan og uppi í Laugafelli, Hrafntinnuskeri og Hvítárnesi í óbyggðum Íslands. Þættirnir eru fjölbreyttir að innihaldi og ólíkir hver öðrum, en eiga það þó sameiginleegt að sýna jafnt skálalífið, samfélagið í kring og alltumlykjandi náttúruna sem bíður upp á gönguleiðir og fjallaklifur af öllu tagi.

Á www.hringbraut.is segir meðal annars um þættina og þáttagerðina: 

Fyrsti þátturinn er frá skála Ferðafélags Íslands að Valgeirsstöðum í Norðurfirði á Ströndum norður, sem í raun er gamall bóndabær sem fór í eyði fyrir bráðum aldarfjórðungi, en þar er meðal annars rætt við skálaverðina Ólínu Þorvarðardóttur og Reyni Traustason, svo og heimafólkið Elínu Öglu Briem og Evu Sigurbjörnsdóttur um viðkvæmt og einstakt samfélagið á ystu mörkum Íslands. Þá er haldið á fjöllin og heiðarnar í kring, gengið meðal annars upp að einum nafntogasta fossi seinni tíma umræðu á Íslandi, Drynjanda í Hvalá sem hugmyndir eru uppi um að beisla með uppistöðulónum og virkjun. Og svo er náttúrlega komið við í kaupfélaginu á staðnum - og Krossneslaus, annað má nú ekki vera.

"Það er búið að vera mikið ævintýri að taka upp þessa þætti með Birni Sigurðssyni myndatökumanni. Ekki einasta höfum við gengið tugi kílómetra, stundum heilan dag til að ná aðeins eins til tveggja mínútna efni, heldur höfum við keyrt um landið þvert og endilangt í samfellt 20 daga eða svo til að koma okkur á milli staða; fórum til dæmis þrisvar norður í Árneshrepp vegna veðurs. Ætli við eigum ekki að baki einhverja 7000 kílómetra, eða sem nemur 5 hringferðum um landið," segir Sigmundur Ernir "og oft komumst við í hann krappann; sveigðum framhjá aurskriðum og bjarghruni á Strandavegi, keyrðum á felgunni suður Sprengisand og fórum í margra tíma vegagerð til að komast yfir kambinn í Hrafntinnusker," bætir hann við - og vill þakka sérstaklega öllum viðmælendum þáttanna sem margir lögðu á sig talsvert erfiði, svo sem dagsferð í Stórurð, ellegar hvöttu þáttastjórnendur óspart áfram eins og á við um guðföður þáttanna, Pál Guðmundsson, framkvæmdastjóra Ferðafélags Íslands.