Nýjar ferðir og verkefni

Skagfjörðsskáli FÍ í Langadal á Þórsmörk
Skagfjörðsskáli FÍ í Langadal á Þórsmörk

Mikill áhugi er á ferðum Ferðafélags Íslands í sumar og hefur félagið bætt við ferðum og verkefnum. ,,Það hefur bókast mikið í ferðir síðustu daga og við höfum verið að bæta við ferðum og byrjuðum á því að fjölga þeim ferðum sem voru þegar uppseldar. Þetta eru ferðir eins og á Laugaveginn, Hornstrandir, Jökulgil, Kjalveg hinn forna og ferðir á fleiri þekktar gönguleiðir. Það er áfram að bókast vel í þær hefur þegar og orðið fullbókað í nokkrar þær ferðir sem við bættum við. Eins höfum við sett upp og kynnt ný verkefni sem eru að hefjast á næstu dögum eins og Vorkvöld í Reykjavík, Göngur og gaman og Útideildina“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri FÍ.

,,Við erum einnig að kynna fleiri ferðir á næstunni og má þar nefna Fjallaskíðaferð á Heklu, gönguferð á Hvannadalshnúk og Dyrhamar og aukaferð á Þverártindsegg og lengra inn í sumarið eru ferðir eins og Bíll og bakpoki og Eltum góða veðrið sem eru útileguferðalög. 

Félagsmönnum hefur fjölgað í félaginu á síðustu dögum og vikum

,,Við höfum séð það áður að í hremmingum í samfélaginu þá hefur fjölgað í félaginu. Fólk leitar inn á við og vill taka þátt í sjálfboðaliðastarfi og ferðast meira innanlands. Þar liggur  líka hlutverk Ferðafélags Íslands og tilgangur og þar höfum við einfaldlega skyldum að gegna, ekki síst við þær aðstæður sem nú eru uppi.  Við munum bjóða upp á verkefni og sjálfboðaliðastarf í auknum mæli í sumar, bæði þátttöku í vinnuferðum í skála, við munum gróðursetja, plokka, laga göngustíga og fleira. Mestu verðmæti félagsins liggja í félagsmönnum og sjálfboðaliðastarfinu og ánægjulegt að sjá að það er vaxandi um þessar mundir.“ segir Páll Guðmundsson.