Opið í alla skála FÍ á fjöllum

Skagfjörðsskáli í Langadal
Skagfjörðsskáli í Langadal

Nú er búið að opna alla skála FÍ á fjöllum eftir frekar erfiðar aðstæður á fjöllum í júní. Skálaverðir mættu til starfa á Laugaveginum uppúr miðjum júní og hófu undirbúning fyrir opnum. Skálaverðir eru einnig mættir til starfa í Nýjadal, í Norðurfirði, í Hornbjargsvita og í Hvítárnesi. Sumarið og sólin hefur verið að sína sig fjöllum og ferðafólk átti til að mynda frábæra daga i í Langadal Þórsmörk um nýliðina helgi. 

Skálar Ferðafélags Íslands og deilda FÍ eru á alls 41 stað víðs vegar um landið. Allir geta notað skálana, óháð aðild að Ferðafélaginu en félagsmenn njóta afsláttarkjara.

Yfir sumartímann eru skálaverðir í flestum stærri skálum sem standa við fjölfarnar gönguleiðir, eins og til dæmis á Laugaveginum.

Svefnplássin í vinsælustu skálunum eru umsetin svo við mælum eindregið með því að fólk panti gistingu og tryggi sér pláss fyrirfram. Þeir sem eru með staðfesta gistipöntun ganga fyrir í skálum. Sé pláss, þá eru félagsmenn FÍ næstir í röðinni.

Skálarnir eru læstir yfir vetrartímann en hægt er að panta gistingu og nálgast lykla fyrir flesta skálana á skrifstofu FÍ, Mörkinni 6.

Í stærstu skálunum er bæði rennandi vatn og vatnsklósett en í sumum þeim minni þarf að sækja vatn í nálæga læki og notast við kamar.

Hægt er að tjalda við flesta fjallaskála FÍ gegn gjaldi. Tjaldgestir þurfa að koma með eigin prímus og eldunaráhöld því þeir hafa ekki aðgang að eldunaraðstöðu skálanna. Sjá verðlista fyrir skála- og tjaldgistingu.

Daggestir þurfa að greiða aðstöðugjald þegar þeir dvelja á skálasvæðunum part úr degi og nýta sér aðstöðuna, svo sem nestisaðstöðu, grill og salerni.

Gott er að kynna sér aðgengi að skálunum hjá Vegagerðinni: vegagerdin.is, sími: 1777