Opið í Langadal

Skagfjörðsskáli í Langadal
Skagfjörðsskáli í Langadal

Það gleður okkur mjög að segja frá því að Skagfjörðsskáli í Langadal opnaði aftur í byrjun vikunnar og fyrsti hópurinn er nú þegar kominn í húsið sem er að lifna við eftir veturinn.

Sigrún Ingunn Pálsdóttir mætti fyrst á vaktina en þetta verður hennar tíunda sumar sem skálavörður hjá FÍ. Hún hefur sinnt skálavörslu Langadal, Hvanngili, Álftavatni og Botnum og segir alla skálana vera sína uppáhalds þótt Hvanngil og Langidalur standi upp úr.

Rafmagn í Langadal

Það má með sanni segja að aðstæður í Langadal hafi breyst til hins betra með lagningu rafmagns þangað í vetur. Í fréttum í nóvember síðastliðnum var rætt við Stefán Jökul Jakobsson, umsjónarmann skála hjá FÍ, sem sagði þessi skipti úr olíukyndingu yfir í rafmagn ekki bara verulega umhverfisvæn, heldur þýddi það líka betri lýsingu og jafnari hita í húsunum.

En hvað segir Sigrún um þessi orkuskipti? 

„Það verður ákveðin bylting í Langadal þegar rafmagnið verður tengt til fulls, það mun einfalda mjög margt.

Það er alltaf ákveðinn sjarmi yfir því að hafa Sóló eldavél til að kynda, og verður ef til vill skrítið þegar þær hverfa“. 

Fjölbreytt og skemmtilegt starf

Sigrún segir fjölbreytnina vera það skemmtilegasta við skálavarðastarfið, það séu ákveðin verkefni sem sinnt sé alla daga en þess á milli þurfi skálaverðir að leysa úr alls kyns málum sem séu af ýmsum toga, allt upp í bíla sem fastir séu í ám. Að hennar mati eru það mikil forréttindi að fá að njóta sumarsins á svona fallegum stað og hlakkar til að hitta hitta fólk, njóta náttúrunnar og sinna þessu skemmtilega starfi.