Óspilllt náttúra hluti af sjálfsmynd Íslendinga

Salvör í ferð á góðum sumardegi með syni sínum.
Salvör í ferð á góðum sumardegi með syni sínum.

Óspillt náttúra stór hluti af sjálfsmynd Íslendinga

  • segir Salvör Nordal, ný stjórnarkona í Ferðafélagi Íslands

Salvör Nordal var kosin í stjórn FÍ fyrr á þessu ári og er félagið án vafa farsælt að njóta krafta hennar.  Salvör er umboðsmaður barna ásamt því að vera prófessor í siðfræði við Háskóla Íslands. Salvör var áður forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ og stundaði þá líka fjölbreyttar rannsóknir á sviði siðfræði og heimspeki auk þess að kenna við Háskólann. Hún er líka einn af höfundum Rannsóknaskýrslu Alþingis um bankahrunið.

En löngu áður en Salvör tók að sér öll þessu brýnu verkefni var hún í sveit hjá góðu fólki á Hjarðarfelli á Snæfellsnesi þar sem fjöllin verkuðu sterkt á hana. Hún var líka talsvert í hestamennsku sem unglingur með vinkonu sinni úr næsta húsi á Laugarásnum og umhirða hestanna og útreiðatúrarnir gerðu tengslin enn þéttari við náttúruna.

Þegar Salvör var svo á skólabekk í Menntaskólanum við Sund eldsnemma á níunda áratugnum nutum við öll sem þar námum þeirra mögnuðu forréttinda að hafa gamla og glæsilega kennsluhúsið í Ólafsdal til afnota. Í því húsi starfaði fyrsti búnaðarskóli landsins sem Torfi Bjarnason stofnaði árið 1880. Skólinn var starfræktur í húsinu fram til ársins 1907.

Þegar  Salvör fór fyrst í Ólafsdal má segja að hún hafi gengið þráðbeint inn í fortíðina um leið og stigið var út úr rútunni á hlaðinu. Húsið var svo til óbreytt frá því það var reist fyrir aldamótin 1900 og myrkrið tók völdin strax og kvöldaði eins og það hafði gert um aldir því ekkert rafmagn var í húsinu. Dularöfl myrkursins hvolfdu sig þannig yfir okkur menntskælingana sem fengum þarna fyrirlestra í stjörnufræði undir berum himni í þessum menningarsögulega afdal.

„Ég fór í Ólafsdal í nokkrar ferðir og það var ótrúlega gaman. Við fórum t.d. þangað í stjörnuskoðunarferð og himinninn var hreinlega sindrandi fyrir ofan mann að vetrarlagi,“ segir Salvör og rifjar upp allar mistísku vistaverurnar sem voru í þessu mikla húsi sem Torfi Bjarnason lét reisa.

Þarna í Ólafsdalnum fengu Salvör og bekkjarfélagar hennar líka tilsögn í jarðfræði enda auðvelt að benda á tilurð og mótun landsins í þessum merka firði sem sker Vestfirðina nánast frá öðrum hlutum Íslands.

Og Salvör var ekki bara í beinum tengsl við fortíðina með því að horfa út um gluggana á gamla skólahúsinu í Ólafsdal, eða með göngum um dalinn að degi til og í vetrarnóttinni, því nándin við óspillta náttúru var nánast áþreifanleg. Salvör skynjaði fjöllin í Ólafsdal eins og hún hafði gert á Snæfellsnesinu þegar hún var þar í sveit sem barn. Hún drakk í sig víðáttuna og fann eigin smæð í þessu mikla gangvirki vestfirskrar náttúru.

„Það óspillta skiptir okkur miklu máli af fjölmörgum og ólíkum ástæðum,“ segir Salvör þegar hún rifjar þetta upp.

„Víðernin tengja okkur við náttúruna með einstökum hætti. Páll Skúlson heimspekingur og háskólarektor fangaði þessa upplifun í grein sinni Hugleiðingar við Öskju. Askja er einn sá magnaðasti á landinu öllu. Á stað eins og í Öskju upplifir maður sig sem hluta af einhverri ótrúlegri heild, þetta er eins og Páll segir, sjálfstæð veröld þar sem maður skynjar hið þögla tóm. Ég man vel þegar ég hlustaði á Pál flytja efni þessarar greinar í fyrirlestri því ég hafði nánast orðið fyrir sömu upplifun þegar ég fór þangað í fyrsta sinn innan við tvítugt þótt ég hefði aldrei náð að fanga þessa upplifun í orð eins og Páll gerði svo vel í fyrirlestrinum,“ segir Salvör.

„Ég hafði samt sjálf orðið fyrir dulmagnaðri reynslu þarna. Það var ótrúlegt að standa þarna nánast einn og skynja víðáttuna, þögnina sem þarna ríkir og skynja smæðina gagnvart þessari veröld.“

Salvör segir að víðáttan og hin óspillta náttúra séu líka stór hluti af sjálfsmynd okkar Íslendinga. Þetta tvennt tengi okkur við lífríki og umhverfi með einstökum hætti svo við finnum vel hvernig við erum partur af náttúrunni en stjórnum henni ekki.

„Og svo er alltaf allra veðra von og náttúruöflin geta svo sannarlega verið óblíð hér á landi,“ segir þessi nýja stjórnarkona í Ferðafélagi Íslands sem flestir félagar binda miklar vonir við.

Markmiðið að njóta og ganga vel um landið

„Ég er auðvitað bara rétt að byrja,“ segir Salvör þegar færð eru í tal þau áhrif sem vænta megi af þátttöku hennar í stjórnarstörfum innan FÍ. „En með nýju fólki koma alltaf nýjar áherslur. Það er mikilvægt að vera í góðu samtali við allan þann fjölda félagsmanna sem stendur á bak við félagið og ekki síður starfsfólk þess. Ég hef kynnst fjölmörgum úrvals leiðsögumönnum í gegnum verkefnin sem ég hef tekið þátt í og þessi hópur býr yfir mikilli þekkingu og reynslu sem er mikilvægt að leita til. Síðan er starfsfólk á skrifstofu, skálaverðir, sjálfboðaliðar og fjölmargir aðrir sem sem leggja félaginu lið með margvíslegum hætti. Allir með það sama markmið að njóta útviveru og ganga vel um landið.“

Salvör segir að Ferðafélagið hafi unnið mikið þrekvirki í áranna rás við uppbyggingu aðstöðu á hálendinu auk þess að stuðla að ferðalögum þangað.

„Það hefur því átt stóran hlut í því að opna hálendið fyrir almenningi. Með ferðum sínum gefur það fólki tækifæri til að njóta útvistar og okkar fallega og einstæða lands. Félagið skiptir líka miklu máli þegar kemur að náttúrvernd. Þetta er gamalt félag með traustar rætur og mig langar að fá tækifæri til að hafa áhrif á þróun þess á næstu misserum.“

Fegurð náttúrunnar hvetur til andlegrar íhugunar

Salvör nam heimspeki við Háskóla Íslands í framhaldi af stúdentsprófi í MS. Námið mótaði hana verulega og skerpti sýn hennar á lífið og tilveruna.

„Hin heimspekilega þjálfun og þau forréttindi að fá að velta fyrir sér heimspekilegum spurningum hafa án efa mótað mig mest. Við lifum á tímum gríðarlegrar efnishyggju og þar sem hinn andlegi veruleiki fær æ minna svigrúm. Ein af sterkustu leiðunum til að tengja við sjálfan sig er að loka símanum og hugleiða úti í náttúrunni. Fegurð náttúrunnar hvetur til andlegrar íhugunar og opnar hugann fyrir nýjum straumum,“ segir Salvör sem ólst upp í Laugarneshverfinu á miklu menningarheimili.

Mamma hennar, Dóra Guðjónsdóttir Nordal, var tónelsk mjög enda píanóleikari og pabbi hennar var Jóhannes Nordal, einn allra fyrsti Íslendingurinn til að menntast í félagsfræði. Hann vakti samt miklu meiri athygli fyrir störf sín sem seðlabankastjóri. Jóhannes lauk enda prófi í hagfræði frá London School of Economics og hafði mikil áhrif í íslensku samfélagi meðan hans naut við.

Afi Salvarar í föðurætt var Sigurður Nordal, fræðimaður í íslenskum fræðum og prófessor við Háskóla Íslands. Hann var líka sendiherra, rithöfundur og skáld. Sigurður orti ástarljóð árið 1917 sem þræddi sig loks inn í hjörtu Íslendinga árið 2003.

„Sólin brennir nóttina, og nóttin slökkvir dag,“ orti Sigurður og Ragnheiður Gröndal söng ljóðið við ópus Magnúsar Þórs Sigmundssonar sem sló rækilega í gegn á Íslandi við upphaf þessarar aldar.

Salvör og systur hennar fengu allar magnað veganesti út í lífið úr Laugarneshverfinu sem þær nýttu til ólíkra afreka á sviði mannlífsins, bæði hér heima og erlendis. Guðrún er þekktur fræðimaður á sviði fornbókmennta og forstöðukona stofnunar Árna Magnússonar sem varðveitir og rannsakar íslensku handritin, Bera Nordal er listfræðingur og safnstjóri í Svíþjóð, Ólöf Nordal, sem nú er látin, var alþingismaður, ráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Marta Nordal er leikkona og leikstjóri. Bróðir þeirra heitir Sigurður Nordal eins og skáldið afi þeirra og býr í Kanada ásamt fjölskyldu sinni.

Sjálf lauk Salvör Nordal doktorsprófi frá Háskólanum í Calgary í Kanada þar sem hún beindi sjónum sérstaklega að persónuvernd.

„Ég geri ráð fyrir að að ég geti nýtt menntun mína og margs konar reynslu og tengsl sem ég hef myndað í gegnum árin í fyrir stjórn Ferðafélagsins, bæði úr stjórnun og fræðum. Ég hef mikinn áhuga á umhverfissiðfræði og kenndi hana um tíma í Háskóla Íslands. Síðan eru auðvitað verkefni sem snúa að börnum og unglingum. Síðustu ár hefur Ferðafélag barnanna notið mikilla vinsælda og það er mikilvægt verkefni innan FÍ.“

Ferðafélag barnanna hefur undanfarin ár átt í afar gefandi samstarfi við Háskóla Íslands þar sem kapp hefur verið lagt á að fræðafólk skólans miðli af þekkingu sinni til barna og ungmenna um lífríki og umhverfi og beini sjónum að mikilvægi sjálfbærnihugsunar í umgengni við náttúruna.

„Að flétta saman sjálfbærnifræðslu og göngum er ein besta leiðin til að svala áhuga á umhverfisvernd og skilja mikilvægi þess að ganga vel um landið og ferðast fótgangandi. Það er mjög ánægjulegt að félagið skuli vinna með HÍ og sinna börnum sérstaklega og að þau læri að njóta landsins í kyrrð og ró.“

Fékk áhuga á göngum í Klettafjöllum

Þótt Salvör hafi verið mikið náttúrubarn alla tíð og lagt áherslu á hreyfingu mestallt lífið þá fór hún ekki mikið í fjallgöngur fyrr en hún hóf nám í Alberta í Kanada. Íslendingar þekkja margir Alberta af tengslunum við Klettafjallaskáldið Stephan G. Stehansson en margir vina Salvarar á þessum slóðum og skólafélagar fóru reglulega í göngur í Klettafjöllunum, en fjöllin voru stundum kveikjan í skáldskap Stephans G.

Eitt þekktasta ljóð Stephans G. gæti jafnvel verið nokkurkonar einkennisljóð Ferðafélagsins því inn í það eru ofin ferðalög og tengslin við upprunann og öflin í náttúrunni, einkenni hennar og svipmót – og Ísland auðvitað.

„Þótt þú langförull legðir sérhvert land undir fót, bera hugur og hjarta samt þíns heimalands mót,“ orti Stephan G, „frænka eldfjalls og íshafs, sifji árfoss og hvers, dóttir langholts og lyngmós, sonur landvers og skers.“

„Þar er ótrúleg náttúrufegurð í Klettafjöllum og ég komst fljótt á bragðið,“ segir Salvör um fylkið þar sem klettafjallaskáldið bar beinin. „Síðustu ár hef ég farið að minnsta kosti í eina lengri göngu hér heima hvert sumar og svo hef ég verið í gönguverkefnum á vegum Ferðafélagsins en í þeim er skipulögð ein ganga í mánuði allt árið. Þau verkefni eru mjög skemmtileg og gott að venja sig á að ganga yfir vetrartímann.“

Salvör segist líta á sig sem fulltrúa hins venjulega félagsmanns í stjórn FÍ sem gangi á hóflegum hraða! „Ég sækist ekki eftir ofurgöngum eða því að klífa hæstu tinda heldur langar mig einfaldlega að njóta útiverunnar og náttúrunnar án þess að vera í kappi við tímann eða setja mér einhver háleit markmið.“

Salvör segir að fyrir utan hreyfingu og sambandið við náttúruna sem hún upplifi sterkt á göngu þá verði það henni æ meira umhugsunarefni hvernig fyrri kynslóðir lifðu af í landinu.

„Það er ótrúlegt hvar fólk hefur búið í aldanna rás . Undanfarin ár hef ég lesið talsvert af frásögnum fólks frá liðnum öldum þar sem lýst er baráttunni við að lifa af. Þá er ekki síður áhugavert að lesa um hrakningar fólks á ferðum sínum milli staða og landshluta. Við megum ekki gleyma þessari sögu, hún tengir okkur við fortíðina en einnig við landið og færir okkur heim sanninn um að við erum háð þessu landi með sérstökum hætti. Við ráðum á endanum litlu þegar við stöndum frammi fyrir náttúruöflunum.“

Þurfum að huga að sjálfbærri nýtingu

Ferðafélagið stuðlar vissulega að ferðum um landið eins og nafnið segir til um, en það hefur fyrst og síðast augun á að ferðmennskan sé með sjálfbærni að leiðarljósi. Félagið byggir að mestu á því að fólk noti fæturna til að ferðast en jafnvel þegar horft er til slíkrar ferðamennsku þarf að hafa í huga að ganga ekki of nærri landinu segir Salvör.

„Við þurfum að huga vel að vernd náttúrunnar ekki síst með stóraukinni ferðamennsku,“ segir hún um þær breyttu aðstæður sem nú eru í íslenskum veruleika.

„Stórframkvæmdir er eitt og við þurfum að huga vel að því hvernig við nýtum auðlindir okkar til orkuframleiðslu. En við verðum ekki síður að huga að ágangi á viðkvæmum svæðum. Eftirsóknin eftir því að ganga um hálendið er að stórum hluta að vera í fámenni og finna fyrir víðáttunni. Laugavegurinn má ekki verða líkt og Laugavegurinn í Reykjavík! Við þurfum að minnsta kosti að huga vel að þessum atriðum.“

„Það er alls staðar fallegt á Íslandi og víða er náttúran mjög sérstök,“ segir Salvör.

„Aðalatriðið er að gefa sér tíma til að horfa í kringum sig og upplifa tengslin við náttúruna. Ég hef ekki farið um allt landið og ég veit að ég á eftir að sjá marga töfrandi staði. Í sumar ætla ég að fara í fyrsta sinn á Hornstrandir og hlakka mikið til þess.“

FÍ heimasíða / JÖG.