Samningur við Vatnajökulsþjóðgarð

Náttúra landsins er mesta auðlind þjóðarinnar.
Náttúra landsins er mesta auðlind þjóðarinnar.

Vatnajökulsþjóðgarður og Ferðafélag Íslands hafa gert með með sér samkomulag vegna Nýjadals á Sprengisandsleið sem nær meðal annars til eftirtalinna þátta: 

 

Almennt

Vatnajökulsþjóðgarður og Ferðafélag Íslands eiga margt sameiginlegt sem snýr að náttúruvernd og upplifun almennings á náttúru og sögu Íslands.  Báðir aðilar leggja sig fram um að stuðla að náttúruvernd og góðri umgengni ferðamanna um þjóðgarðinn.

 

Ferðafélag Íslands er áhugamannafélag með um átta þúsund félagsmanna og tilgangur þess er að stuðla að ferðalögum á Íslandi. Þetta gerir félagið meðal annars með skipulagningu fjölbreyttra ferða, uppbyggingu og rekstri fjallaskála og viðamiklu útgáfustarfi, merkingu gönguleiða og upplýsingagjöf.

 

Vatnajökulsþjóðgarður er ríkisstofnun sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Markmið stofnunarinnar eru að vernda náttúru svæðisins, gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins, stuðla að rannsóknum, fræða og ýta undir aukinn skilning almennings á gæðum og sérstöðu svæðisins. Einnig leitast Vatnajökulsþjóðgarður við að styrkja byggð og atvinnustarfsemi í nágrenni þjóðgarðsins.

 

Samstarf

Með samningi þessum staðfesta fulltrúar Vatnajökulsþjóðarðs og Ferðafélags Íslands samkomulag um að vinna vel saman innan marka þjóðgarðsins í almannaþágu og til að stuðla að sjálfbærri nýtinu náttúru Íslands. Samstarfið samkvæmt þessum samningi nær til eftirtalinna verkefna í Nýjadal:

 

1.      Samstarf um nýtingu á mannvirkjum og annarri aðstöðu Ferðafélags Íslands.

Starfsmenn Ferðafélags Íslands og Vatnajökulsþjóðgarðs nýta sameiginleg húsnæði og aðra innviði Ferðafélags Íslands á svæðinu til að taka á móti ferðamönnum og til gistingar meðan þeir stunda störf sín á svæðinu. Ferðafélag Íslands tryggir að nægjanlegt húsnæði sé fyrir hendi vegna þessa fyrir starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs á samningstímanum sem eru ýmist einn eða tveir að störfum hverju sinni.

2.      Samstarf um landvörslu og öryggismál.
Landverðir VJÞ og skálaverðir FÍ vinna saman eftir bestu getu og góðum hug. Verkefni landvarða og skálavarða eru skilgreint í starfslýsingum og bera þeir ábyrgð á sínum verkum og skyldum skv. starfslýsingunni. Oft skarast verkefni og ábyrgð og skuluaðilar þá vinna saman, og eða leyst hvorn annan af eftir því sem aðstæður leyfa.

 

3.      Samstarf um fræðslu og leiðsögn.
Fræðsla og leiðsögn er stór og mikilvægur þáttur í starfi landvarða VJÞ.  Um leið veita skálaverðir FÍ fræðslu og leiðsögn í sínu starfi.  VJÞ og FÍ tryggja að fræðslustarf sé unnið af ábyrgð og faglegum hætti, út frá öryggismálum, náttúruvernd og tryggja samræmi í upplýsingagjöf.

 

4.      Samstarf um viðhald, merkingu og skáningu upplýsinga um gönguleiðir.
Uppbygging, viðhald og merking gönguleiða er sameiginlegt hagsmunamál VJþ og FÍ og með samkomulagi þessu lýsa aðilar sig reiðubúna til samstarfs á þessum vettvangi með margvíslegum hætti.

 

5.      Önnur samstarfsverkefni

Sérstakir samningar skulu gerðir um einstök samstarfsverkefni á milli Vatnajökulsþjóðgarðs og Ferðafélags Íslands telji báðir aðilar þörf á því.

 

6.      Reglur Vatnajökulsþjóðgarðs

FÍ skal í starfi sínu innan Vatnajökulsþjóðgarðs fylgja reglum þjóðagarðsins á hverjum tíma um rekstur og starfsemi innan þjóðgarðsins þ.m.t. eru gildandi Stjórnunar- og verndaráætlun, atvinnustefna og reglugerðir.

 

7.      Framsal

Annar samningsaðilinn getur ekki án skriflegs samþykkis hins, framselt réttindi og skyldur sínar samkvæmt samningi þessum til þriðja aðila.