Starf FÍ liggur niðri að mestu

Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins, og Ragnheiður Ingunn, dóttir hans, í almannavarna…
Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins, og Ragnheiður Ingunn, dóttir hans, í almannavarnagöngu.

Starfið liggur niðri að mestu

Starf Ferðafélags Íslands liggur niðri að mestu nú meðan COVID-19 faraldurinn gengur yfir. Starf félagsins byggir á gönguferðum, skálarekstri og útgáfustarfi og í ferðum og skálum þar sem hópar fólks koma saman og hefur samgöngubannið gert það að verkum að ferðir og skálarekstur er stopp sem stendur.

„Staðan er því alvarleg. Allar bókanir hafa stöðvast og nú er lokað fyrir allt tekjustreymi til Ferðafélagsins.“ segir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri. „Við höfum frestað hefðbundnum verkefnum, aflýst ferðum á meðan samkomubann stendur og lokað öllum skálum okkar auk þess að fresta öllum kynningarfundum og eða fært yfir í fjarfundi.“ Skrifstofa félagsins er lokuð en afgreiðsla og þjónusta við félagsmenn fer fram í gegnum síma og tölvupóst. ,,Útgáfustarfið er hins vegar á fullum dampi og árbók félagsins 2020 farin í prentun og verið að vinna að árbókum næstu ára, auk þess sem nokkur gönguleiðarit eru í vinnslu og eitt sem kemur út nú á vordögum.“ 

Páll segir að Ferðafélagið líti á þessar aðstæður sem erfiða brekku sem allt samfélagið verði að klífa. „Við erum þess fullviss að hægt og örugglega náum við á tindinn. Alveg eins og í góðri fjallgöngu þá þurfum við að sýna þrautseigju, þolinmæði og dyggð á uppleiðinni og fylgja öllum reglum og nota rétta búnaðinn til að tryggja öryggið í þessum krefjandi leiðangri.“

Hér vísar Páll til þess að félagið muni í einu og öllu fylgja þeim leiðbeiningum og reglum sem Almannavarnir og sóttvarnarlæknir gefa út.

Páll segir að stjórnendur Ferðafélagsins hafi sett upp nokkrar sviðsmyndir fyrir sumarið og viðbrögð við þeim. 

„Almannavarnir, sóttvarnarlæknir og landlæknir hafa unnið frábært starf ásamt öllu því góða fólki sem tekist hefur á við þessa áskorun af aga og yfirvegun af vísindalegri nákvæmni. Ísland verður því hugsanlega fyrsti kostur þeirra sem byrja að ferðast að nýju.“ segir Páll.

Hann bætir því við að Íslendingar séu almennt heilsuhraustir og allt það góða fólk í heilbrigðisþjónustunni sem vinni einstakt starf við að sinna sjúkum og verja áhættuhópana í samfélaginu geri það að verkum að við munum komast hraðar og betur út úr þessum aðstæðum en margar aðrar þjóðir.

„Ferðaáætlun FÍ 2020 kom út í ársbyrjun og var þegar orðið fullbókað eða velbókað í fjölmargar ferðir.  Um leið og samfélagið fer aftur í gang þá standa allar ferðir í ferðaáætluninni óbreyttar samkvæmt áætluninni. Landsmenn munu líklega ferðast meira innanlands en síðustu ár og þar höfum við skyldum að gegna. Við gerum ráð fyrir að ferðir félagsins verði komnar í fullan gang þegar líður fram á sumarið. En auðvitað veit þetta enginn í dag og við þurfum að taka stöðuna frá degi til dags og frá viku til viku. Við erum enn sem komið er einungis að vinna með spár. 

Allir í Almannavarnagöngur

Páll segir að burtséð frá óvissuástandi og samkomubanni hafi verið erfitt að fresta ferðum þar sem útvera og hreyfing sé eitt það allra besta sem fólk geti gert, ekki síst við þær aðstæður sem nú eru uppi.

„Þótt okkar starf falli niður tímabundið þá er gríðarlega mikilvægt að fólk hreyfi sig áfram, fari út að ganga, hjóla, hlaupa eða geri hvað annað sem felur í sér góða útivist og samkvæmt reglum um samkomubann að sjálfsögðu.“

Páll segir að sú hugmynd hafi komið fram innan félagsins að reyna að virkja landsmenn með markvissum hætti til hreyfingar og til hafi orðið verkefni sem kallist Almannavarnagöngur. Gönguferðirnar í þessu verkefni eiga að vera frá heimili hvers og eins þar sem gengið er í næsta nágrenni. Gengið er með maka eða fjölskyldu eða út af fyrir sig eftir atvikum.

„Mjög margt fólk í heilbrigðisþjónustunni tekur þátt í starfi Ferðafélagsins. Það vinnur undir gríðarlegu álagi þessa dagana . Því vildum við ganga þeim til heiðurs og um leið minna okkur á að við erum öll almannavarnir.“

Páll segir að um leið og Almannavarnagöngurnar séu í gangi þá munu umsjónarfólk fjallaverkefna FÍ og hreyfiverkefna einnig bjóða upp á heimaæfingar og eitt og annað þar sem netið er notað til hins ítrasta.

„Félagsskapurinn, vináttan og félagslegur stuðningur hefur alltaf verið afgerandi forsenda fyrir þátttöku fólks í verkefnum hjá FÍ og það er mikilvægt að halda því áfram þótt aðrar leiðir séu notaðar. Því vildum við að fólk hringdi í vin, á meðan á göngu stendur, eða á undan eða á eftir henni, til þess að hvetja aðra til dáða.“

Þátttakendur í Almannavarnagöngunum taki líka myndir af sér í hverri göngu og sendi á facebook með myllumerkinu ferdafelagislands. Páll hvetur ekki bara fólk til þátttöku í þessu nýja verkefni heldur líka til að fylgja reglum um hreinlæti og fjarlægð í samskiptum og að vera óspör á brosið.

FÍ Almannavarnagöngur á Facebook