Stórtjón á Skála FÍ á Valgeirsstöðum Norðurfirði

Þakið farið af viðbyggingunni.
Þakið farið af viðbyggingunni.

Skáli Ferðafélags Íslands í Norðurfirði á Ströndum er stórskemmdur eftir óveðrið sem þar gekk yfir síðastliðna nótt. Þak flettist af viðbyggingu þar sem er inngangur, setustofa og salerni. Er sá hluti hússins nú aðeins opin tóftin. Þá fuku þakplötur af risi eldri hluta hússins.

„Þetta er mikið tjón og ömurlegt að sjá hvernig húsið er farið.“ sagði Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands, í samtali við mbl.is. „Árneshreppur er einstakur í hugum okkar Ferðafélagsfólks og Valgeirsstaðir hafa gegnt lykilhlutverki í starfi okkar á Ströndum. Þetta er hús með góða sál og mikla sögu.  Við munum gera allt sem hægt er til að fyrirbyggja frekara tjón og í framhaldinu ráðast í uppbyggingu hússins.“

Þegar Stefán Jökull Jakobsson umsjónarmaður skála FÍ og Halldór Halldórsson þjónustustjóri skála FÍ komust í Norðurfjörð tveimur dögum eftir að óveðrið gekk yfir landið, kom í ljós að milliloft hússins stendur enn og hefur varið húsið fyrir frekari skemmdum.  Stefán og Halldór náðu að verja húsið með loka fyrir öll göt með timbri og negla niður bárujárnsplötur á þaki.  Vinnuflokkur er nú í startholunum til að komast í Norðurfjörð og hefja viðgerðir á húsinu.  Ófærð og rafmagnsleysi hafa hins vegar gert mönnum erfitt fyrir. 

Fréttin á mbl.is