Svelgur á Fimmvörðuhálsi

Varasamar aðstæður eru á Fimmvörðuhálsi og ástæða til varúðar. Bjarni Már Gylfason, einn af reyndustu fararstjórum Ferðafélags Íslands, var þar á ferð um helgina og rétt ofan við Baldvinsskála á hefðbundinni gönguleið varð stór svelgur á vegi göngumanna rétt við slóðina. Bjarni Már sagði að við svelginn væri undirlag ótryggt og því varasamt að koma of nálægt honum. Hann sagði svelginn nógu djúpan til þess að erfitt eða ómögulegt væri að komast upp úr honum án sérhæfðra hjálpartækja eða aðstoðar.
Seinni torfæran sem mætti Bjarna og ferðafélögum hans var kafli með ís og hálku dálitið norðan við svelginn. Þeim tókst að komast framhjá með því að þræða sand og öskubletti en best hefði verið að hafa brodda/hálkubrodda.
Myndin sýnir hvar þessar torfærur eru á hálsinum og rétt að göngufólk hafi í huga að fara varlega kringum svelginn og hafa hálkubrodda meðferðis til þess að takast á við hálku og ís.