Takmarkanir á umferð um Skógaheiði

Eftirlitsferð var farin um gönguslóða á Skógaheiði 20. febrúar af sérfræðingum Umhverfisstofnunar. Viðbúið var að ástandið þar gæti orðið slæmt þegar vorleysingar hæfust. Helstu niðurstöður voru þessar:

  • Gróðurskemmdir hafa orðið
  • Hætta er á meiri gróðurskemmdun með óbreyttu ástandi
  • Náttúra á þessu svæði er viðkvæm, sérstaklega á þessum árstíma
  • Loka þarf svæðinu tímabundið til að koma í veg fyrir frekari skemmdir.
  • Svæðið sem um ræðir er innan friðlýsts svæðis náttúruvættisins Skógafoss.

Undanfarna daga hefur hlýnað verulega á Suðurlandi eftir nokkuð langan kuldakafla þar sem frost var oft töluvert. Leysingar og rigning hafa valdið því að á umræddum gönguslóða er ökkladjúp leðja og örbleyta sem liggur ofan á harðri jörðu þar sem enn er frost í jarðvegi undir yfirborðinu. Þeir sem vilja ganga upp meðfram Skógaá upp frá Fosstorfufossi ganga utan gönguslóðans og er gróður farinn að láta á sjá utan slóðans vegna ágangs. Gönguslóðinn breikkar því smátt og smátt, jafnframt sem djúpar rásir hafa myndast þar sem vatn streymir niður og veldur frekara rofi á slóðanum.

Uppbyggður göngustígur var lagður á árunum 2017 til 2018 fyrstu 600 metrana upp meðfram Skógaá frá Skógafossi að Fosstorfufossi og þolir sá stígur umferð gangandi gesta vel, þó enn sé smá af ís og snjó á stígnum. Svæðið sem er í slæmu ástandi finnst við endan á uppbyggða stígnum.

Umhverfisstofnun leggur til að gönguslóði á Skógaheiði verði lokaður við Fosstorfufoss tímabundið, eða þar til aðstæður breytast og tryggt er að umferð gangandi gesta valdi ekki frekari skemmdum á náttúrunni. Viðbúið er að lokunin þurfi til þess að vara fram eftir vori.