Það er leikur að læra

Í áætlun Ferðafélags Íslands 2021 leynast nokkur sérlega áhugaverð námskeið. Þar gefst áhugasömu útivistarfólki kostur á að setjast við fótskör veðurbarinna reynslubolta sem deila þekkingu sinni með námfúsum byrjendum og lengra komnum.

Hinir heitfengu geta lært að liggja úti á vetrum undir stjórn Róberts Marshall og Brynhildar Ólafs. Hinir áttavilltu geta lært á GPS af Hilmari Aðalsteinssyni. Hinir vatnshræddu geta þverað straumvötn með Halldóri Hreinssyni og þeir lífhræddu læra skyndihjálp af Ævari og Örvari Aðalsteinssonum.
Hinir harðfylgnu læra vetrarfjallamennsku með Sigurði Bjarka Ólafssyni en þeir áhættusæknu fara á fjallaskíðanámskeið með Tómasi Guðbjartssyni og Helga Jóhannessyni í Bláfjöllum. Hinir varkáru og viti bornu fara á snjóflóðanámskeið með Auði Kjartansdóttur en hinir forvitnu sækja námskeið í blaðamennsku við ysta haf með Reyni Traustasyni og Vigdísi Grímsdóttur.

Að öllu gamni slepptu þá eru þetta allt saman úrvals námskeið sem allir sem hyggja á útivist ættu að íhuga að sækja. Móðir náttúra tekur okkur oftast blíðlega í faðminn en hún getur líka löðrungað okkur ansi harkalega þegar sá gállinn er á henni.

Að lokum má geta þess að FÍ mun bjóða uppá námskeið í ferðaskíðamennsku ( utanbrautarskíði / Cross country skiing ) á nýju ári þegar aðstæður leyfa með margreyndu gönguskíðafólki.  Í kjölfarið verður boðið upp áhugaverðar ferðir á ferðaskíðum.