"Það vantar spýtur og það vantar sög..."

Í sumar verður suðurveggurinn í Hvítárnesi hlaðinn upp á ný og elsta hús Ferðafélagsins verður eins og nýtt um stund.
Í sumar verður suðurveggurinn í Hvítárnesi hlaðinn upp á ný og elsta hús Ferðafélagsins verður eins og nýtt um stund.

Nú eru tímar gass og olíu senn liðnir í Þórsmörk. Rafmagn er að mestu komið í Skagfjörðsskála, skálavarðahús og þjónustuhús.  Meira að segja Skáldagil, hinn forni bústaður Jóhannesar úr Kötlum hefur verið rafvæddur og nú geta rafbílar fengið hleðslu í hlaðinu í Langadal. Þannig læðist nútíminn inn um gluggann og hreiðrar um sig án þess að nokkur taki eftir.

Á Valgeirsstöðum í Norðurfirði hafa framkvæmdir gengið vel og húsið komið í mjög gott horf fyrir sumarið eftir að hafa verið að hluta endurbyggt. Í miklu óveðri 10. des 2019 urðu miklar skemmdir á Valgeirsstöðum og stóð húsið nánast opið fyrir veðri og vindum allan þann veturinn. Viðgerðir hófust ekki fyrr en í júní 2020 og nú hefur verið skipt um allar raflagnir, vatnslagnir, klæðningar á veggjum, loftaklæðningar og parket. 

Í Hvítárnesi er elsti skáli Ferðafélagsins, reistur 1930 og er mikil og stöðug vinna að halda húsinu í því horfi sem sæmir þessum menningararfi. Sumarið 2017 var norðurveggur skálans endurbyggður, skipt um stoðvirki og húsið klætt.  Í vor var skipt um millivegg og fúnar stoðir í suðurvegg endurnýjaðar. Kojur voru smíðaðar upp og nú er beðið eftir sérstökum hleðslumönnum sem munu hlaða suðurvegginn upp líkt og norðurvegginn.
Húsið verður eins og nýtt um stund eftir þessar endurbætur. Hitt væri verra ef bramboltið hefði hrakið í burtu þá reimleika sem lengi hefur verið sagt að fylgi staðnum.