Túbumatur

Auglýsing frá 1961 í blöðungi Alþýðublaðsins um Þórsmörk.
Auglýsing frá 1961 í blöðungi Alþýðublaðsins um Þórsmörk.

Það getur verið gaman að blaða í gömlum bókum eða skoða gömul kort og rit. Þar er oft ýmsan fróðleik að finna, sumt sem enn á við í dag en annað sem hefur breyst með árunum. Það er ekki síður gaman að skoða auglýsingar sem komnar eru til ára sinna því þær gefa oft góða mynd af tíðarandanum og hvað var vinsælt á hverjum tíma. 

TÚBUMATUR

Nýlega var til umræðu mikilvægi þess að gefa ungbörnum ekki bara fljótandi fæðu úr túbum. Þau yrðu að læra að tyggja venjulega fæðu. Okkur þótti því gaman að rekast á auglýsingu frá 1961 þar sem auglýstur var handhægur túbumatur í ferðalögin. 

Auglýsinguna fundum við í litlu riti um Þórsmörk, útgefnu af Alþýðublaðinu. Þar auglýsir SKIPHOLT H/F handhægan Túbumat í ferðalögin, Kaviar, mayonase, kryddsíld, jarðarberjasultu, sýróp (á brauð og kökur) og tómatsósu. 

„Losnið við útklístraða matarpakka, biðjið um Túbumatinn frá SKIPHOLT H/F hann fæst í öllum betri matarbúðum”

Gestur og Þórsmörkin

Þess má geta að sá sem bar ábyrgð á þessu litla riti um Þórsmörk var Gestur Guðfinnsson, skáld og blaðamaður, en hann var lengi fararstjóri og starfaði mikið fyrir Ferðafélag Íslands. Hann hafði sérstakt dálæti á Þórsmörk og dvaldi þar oft og skrifaði greinar um þennan eftirlætisstað sinn í Árbók Ferðafélagsins og önnur rit.