Umfangsmikið og fjölbreytt starf

Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti FÍ
Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti FÍ

Sigrún Valbergsdóttir varaforseti FÍ flutti skýrslu stjórnar á aðalfundi félagsins þann 16 mars sl. Sigrún kom víða við í ræðu sinni og fór yfir umfangsmikið og fjölbreytt starf félagsins. Meðal annars fór hún yfir ferðir, fjalla- og hreyfiverkefni félagsins en þegar mest var voru um 25 fjalla- og hreyfiverkefni í gangi á sl. ári. Þá greindi hún frá starfi Ferðafélags barnanna og samstarfsverkefnum, meðal annars við Háskóla Íslands og verkefninu ,,með fróðleik í fararnesti, “ en það samstarfsverkefni hefur nú staðið í 12 ár. Þá greindi Sigrún frá helstu verkefnum í skálum félagsins og rakti helstu framkvæmdir í hverjum skála. Þá kom hún inn á undirbúningsvinnu við nýjan Skagfjörðsskála sem nú er hafin og var kynnt sérstaklega síðar á fundinum af formanni byggingarnefndar. Einnig fór Sigrún yfir útgáfustarf félagsins og sagði frá væntanlegri árbók félagsins 2023 um Flóann sem nú er í prentsmiðju, sem og greindi frá árbókum félagsins fram til ársins 2027.  Þá er einnig væntanlegt með vorinu gönguleiðarit um Hornafjarðarfjöll. 

Þá gerði Sigrún grein fyrir sjálfboðaliðastarfi félagsins sem hefur frá stofnun félagsins gert því mögulegt að sinna öllum þeim verkefnum sem eru hluti af kjörsviðum þess.

Þá fór Sigrún yfir niðurstöður úr úttekt Lífs og sálar sem gerð var á áreitismálum sem komið hafa upp á sl. 5 árum og unnin var í kjölfar ásakana um að félagið hefði sópað öllum málum undir teppið. Í niðurstöðum Lífs og sálar segir m.a.:

,,Margt hefur verið vel gert í meðhöndlun þessara mála. Í hverju máli sem tilkynnt hefur verið til félagsins sl. 5 ár, hefur verið brugðist við og af hálfu félagsins verið fundað með málsaðilum, nema að boð um fund hafi ekki verið þegið. Hlutaðeigendur upplýstir um framvindu og haft samráð við þolendur um hana. Í samræmi við viðbragðsáætlun hafa mál verið til lykta leidd eftir alvarleika máls.”

Viðbragðsáætlun FÍ frá 2016 hefur verið uppfærð m.a.  2022 og 2023 og er skýr og nákvæm. Líf og sál bendir á að fomfesta í einstaka málum og skráning hefði mátt vera ítarlegri.

Í niðurstöðum kemur einnig fram að í febrúar 2023 hafi stjórn endurskoðað og uppfært viðbragðsáætlun frá 2022, með þeim hætti að þrír utanaðkomandi aðilar skipi nú fagteymi sem fær allar tilkynningar til sín sem vísi málum í úttekt hjá fagaðila ef ástæða þykir til. Líf og sál telur að slík skipan mála sé mjög af hinu góða.

Í lok ræðu sinnar þakkaði Sigrún öllum þeim fjölmörgu aðilum sem hafa komið að starfi félgsins á liðnu ári, sjálfboðaliðum, fararstjórum, skálavörðum og starfsfólki á skrifstofu, auk þess sem hún þakkaði samstarfsaðilum fyrir samstarf og stuðning.