Umhverfisvæn ferðaáætlun FÍ 2021

Grænihryggur
Grænihryggur

Aðfaraorð í ferðaáætlun FÍ

Ólafur Örn Haraldsson, forseti FÍ 

Ferðaáætlun Ferðafélags Íslands er nú í fyrsta skipti gefin út eingöngu á rafrænu formi og eiga allir aðgang að henni á heimassíðu félagsins fi.is.
Þrjár aðalástæður eru fyrir þessu. Í fyrsta lagi hefur æ stærri hópur félagsmanna eingöngu nýtt sér áætlunina með nettengingu en slíkt má segja um lestur og margvíslega miðlun upplýsinga í seinni tíð s.s. í blaða- og bókaútgáfu, birtingu fréttabréfa, árskýrslu o.s.frv. Í öðru lagi vill Ferðafélagið leggja sitt af mörkum í umhverfismálum þ.á m. að draga úr pappírsnotkun sem óneitanlega er umtalsverð við prentun og útgáfu ferðaáætlunar í tugþúsunda tali. Í þriðja lagi sparast talsverð fjárupphæð með þessari dreifingaraðferð en félagið hefur leitað allra leiða til þess að draga úr rekstrarkostnaði vegna mikils tekjufalls svipað og aðrir rekstraraðilar ekki síst þeir sem starfa í ferðaþjónustu.

Vissulega sjá margir eftir því að geta ekki handleikið ferðaáætlunina, jafnvel haft hana á náttborðinu eða eldhúsborðinu, og lesið sér til ánægju um allar þær ótrúlega mörgu ferðir sem í boði eru. Sumir hafa mikla ánægju af lestrinum enda þótt þeir ætli sé ekki í nokkra ferð á komandi ári. Á hinn bóginn gefur rafræna útgáfa áætlunarinnar ýmsa möguleika umfram pappírsútgáfuna.

Þá er líka þess að líta að ferðaáætlunin fyrir næsta ár verður sveigjanlegri en áður þ.e. nýjum ferðum verður bætt við eftir því sem aðstæður og eftirspurn kalla á. Þetta varð raunin síðast liðið sumar þegar í ljós kom hinn mikili áhugi landsmanna á ferðum félagsins. Við því var brugðist með fjölgun ferða og nýjum valkostum í ferðavali. Var það sem við manninn mælt að þær fylltust allar og komust oft færri að en vildu. Mikil aðsókn að ferðum og fjölgun félagsmanna gefur von um að vaxandi fjöldi muni ferðast með félaginu á næsta ári. Verður þá ferðum fjölgað og úrval þeirra gert fjölbreyttara og þær upplýsingar birtar á vef félagsins.

Ferðaáætlunin 2021 er nú aðgengileg á heimasíðu í glæsilegri útgáfu með handhægu flettiforriti.  Um leið er prentvæn útgáfa af áætluninni aðgengileg á pdf skjali sem auðvelt er að prenta út heima. 

Ferðafélag Íslands býður öllum að ganga til liðs við félagið og  að taka þátt í ferðum félagsins og njóta þeirra fríðinda sem félagsaðild gefur. Vonast er til að nýbreytni í útgáfu ferðaáætlunarinnar bæti upplýsingar og veiti betri þjónustu.

Ferðafélag Íslands óskar ferðafélögum og ferðafólki öllu góðrar ferðar.

Ólafur Örn Haraldsson,
forseti Ferðafélags Íslands

Ferðaáætlun FÍ 2021 í flettiforriti