Undir yfirborð jarðar

Búrfellsgjá
Búrfellsgjá

Laugardaginn 16. október efnir Ferðafélag Íslands til jarðfræðiferðar í Búrfellsgjá í samstarfi við Háskóla Íslands undir yfirskriftinni: Með fróðleik í fararnesti.
Helga Kristín Torfadóttir, sem stundar doktorsnám í eldfjalla- og bergfræði við HÍ, mun leiða göngu um Búrfellsgjá á laugardaginn kemur, þann 16. október kl. 11. Göngufólk ekur í aðdraganda göngunnar á einkabílum meðfram Vífilsstaðahlíð í átt að Hjöllum en þar eru bílastæði við veginn. Það er svo gengið um gjánna.  Þátttaka er ókeypis og allir velkomnir. Ekkert að panta, bara mæta. 
Helga Kristín er svo sannarlega vön að skýra út flókna hluti á mannamáli. Hún hefur vakið heimsathygli fyrir vísindamiðlun á eigin Instagram-síðu undanfarin misseri. Þar deilir hún fróðleik á mannamáli um gosið á Reykjanesi og ótrúlegustu undur sem snerta jarð- og jöklafræði.
Helga Kristín segist alltaf verið „svaka nörd“ og haft mikinn áhuga á vísindum og náttúru, alveg frá því að hún var smábarn. „Ég tengi mikið við hvaða vísindagrein sem er og áður en ég uppgötvaði ástríðu mína fyrir jarðfræði stefndi ég á læknisfræði. Ég hef líka mikinn áhuga á útivist, ævintýrum og ljósmyndun…. jarðfræðin sameinar alla þessa þætti.“

Í Búrfellsgjá mun Helga Kristín lýsa tilurð þess sem fyrir augu ber í jarðfræðilegum skilningi. Líklegt er að skimað verði eftir hellum á gönguleiðinni og því gæti verið gott að taka með sér vasaljós, vera í góðum skóm og hafa með gott nesti. Gangan tekur um tvær til þrjár klukkustundir.