Vatna­jök­ulsþjóðgarði bætt á lista yfir heims­minj­ar

„Þetta er fyrst og fremst mik­ill heiður fyr­ir al­menn­ingsþjóðgarðinn og Ísland allt,“ seg­ir Magnús Guðmunds­son, fram­kvæmda­stjóri Vatna­jök­ulsþjóðgarðs, þegar blaðamaður mbl náði tali af hon­um á heimsþingi UNESCO sem fram fer í Bakú í Aser­baí­djs­an. Þá hafði þingið ný­samþykkt að bæta Vatna­jök­ulsþjóðgarði á lista sinn yfir heims­minj­ar og þykir það stærsta viður­kenn­ing sem nátt­úru­svæði get­ur hlotn­ast.

Magnús seg­ir að hér sé fólg­in viður­kenn­ing á þeim ein­stöku nátt­úru­öfl­um sem finna megi á svæðinu, jökl­un­um, land­formun­um, jök­ulán­um og eld­fjöll­un­um.

Heims­minja­stofn­un­in er kröfu­hörð og ekki hvaða svæði sem er sem rata inn á list­ann. Upp­fylla þurfi strang­ar kröf­ur um rekst­ur garðsins og á þeim er ekki slakað þótt svæðið sé komið með viður­kenn­ing­una. „Það má líta á þetta eins og gæðavott­un,“ seg­ir Magnús. Fylgst sé með hvort þjóðgarður­inn standi sig í stykk­inu, en dæmi séu um að svæði sem kom­ist hafa á list­ann detti af hon­um sé ekki staðið við skuld­bind­ing­ar.

Í til­felli Vatna­jök­uls er rekst­ur­inn í góðum mál­um. Í um­sögn Alþjóðlegu nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna (IUCN), sem mæltu með því að þjóðgarðinum yrði bætt á list­ann, var þeim til­mæl­um beint til stjórn­valda að lokið yrði sem fyrst við end­ur­skoðun stjórn­un­ar- og verndaráætl­un­ar garðsins, og mannauður þjóðgarðsins verði efld­ur, bæði með til­liti til heils­árs- og tíma­bund­ins starfs­fólks, ekki síst við Jök­uls­ár­lón þar sem einnig þurfi að bæta aðstöðu ferðamanna. Þá þurfi að efla aðgerðir sem hindra ut­an­vega­akst­ur.

Magnús seg­ir að vinna við þessa þætti sé í gangi og nefn­ir að at­vinnu­stefna garðsins, sem tek­ur á sam­skipt­um garðsins við at­vinnu­rek­end­ur á svæðinu, hafi ný­lega verið samþykkt. Aðspurður seg­ir hann ekki ólík­legt að aukið ut­an­um­hald um garðinn, ekki síst meiri mönn­un, kalli á frek­ara fjár­magn.

En hvaða tæki­færi eru fólg­in í vott­un­inni? Mun áhugi á garðinum aukast?

„Ég held tví­mæla­laust að þetta muni auka áhug­ann á garðinum, inn­an­lands og utan. Aðal­breyt­ing­in verður senni­lega sú að við fáum kröfu­h­arðari ferðamenn. Fólk sem ger­ir meiri kröf­ur til upp­lýs­ing­ar og fræðslu, og dvel­ur þá von­andi leng­ur í garðinum,“ seg­ir Magnús. Ferðamenn sem ekki ætli sér að stoppa við Jök­ulsár­lón í tvo tíma og fara svo aft­ur í bæ­inn.

Hann seg­ir stór­an hóp ferðamanna gera út á að heim­sækja heims­minj­astaði og slík­um megi eiga von á. „En þetta er fyrst og fremst viður­kenn­ing.“

Í fram­kvæmda­stjórn heims­minja­stofn­un­ar UNESCO sitja 58 ríki og taka full­trú­ar þeirra end­an­lega ákvörðun um viðbæt­ur á list­ann. Um 40 svæðum var á þing­inu bætt á heims­minja­skrána, en þar af falla flest und­ir menn­ing­ar­verðmæti. Inn­an við tíu svæðum var bætt á nátt­uru­m­inja­skrána, þá sem Vatna­jök­ulsþjóðgarður til­heyr­ir nú.

Þjóðgarður­inn er sá þriðji ís­lenskra svæða sem bæt­ist á list­ann, en fyr­ir eru Surts­ey sem tek­in var á nátt­úru­m­inja­skrána árið 2008, og Þing­vell­ir sem riðu á vaðið árið 2004 en þeir eru á list­an­um vegna sögu­legs verðmæt­is svæðis­ins.