Vatnajökulsþjóðgarður gerir samning við Ferðafélag Íslands

Páll, Ólafur Örn og Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.
Páll, Ólafur Örn og Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

 Vatnajökulsþjóðgarður hefur gert samning við Ferðafélag Íslands og þrjú ferðafélög um að nýta aðstöðu í skálum félaganna innan þjóðgarðsins og um sameiginleg verkefni.

Jafnframt hefur verið skrifað undir viljayfirlýsingu um samstarf til lengri tíma. Samningarnir eru við Ferðafélag Íslands sem á og rekur skála í Nýjadal, Ferðafélag Akureyrar sem á skála Dreka í Dyngjufjöllum og Þorsteinsskála í Herðubreiðarlindum og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og Ferðafélag Húsavíkur sem reka Sigurðarskála í Kverkfjöllum.

„Við erum mjög ánægð með samninginn og viljayfirlýsinguna sem koma samskiptunum í fastara form og gera okkur kleift að horfa lengra fram á veginn. Við fögnum samstarfi við þjóðgarðinn sem okkur þykir öllum vænt um,“ segir Ólafur Örn Haraldsson forseti FÍ. Í samningunum felst að ferðafélögin leigja Vatnajökulsþjóðgarði aðstöðu í skálunum.  Samstarf er um landvörslu og öryggismál, fræðslu og leiðsögn, samstarf um viðhald, merkingu og skráningu upplýsinga um gönguleiðir og um skráningu örnefna og útgáfu korta.

Ólafur segir að kveðið sé á um reglulega stöðufundi og uppýsingagjöf. „Samkomulagið mun skapa góðan anda og aukið traust, samvinnu og gott starf á svæðunum og styrkir þá innviði sem þar eru.“