Víðir dró nöfn vinningshafa

Páll Guðmundsson og Víðir Reynisson ásamt pottinum góða.
Páll Guðmundsson og Víðir Reynisson ásamt pottinum góða.

Fyrir nokkrum vikum settum við á laggirnar nýtt verkefni undir yfirskriftinni FÍ Almannavarnagöngur þar sem þátttakendur voru hvattir til að fara út að ganga í nærumhverfi sínu og huga þannig að góðri heilsu og um leið að hringja í vin og hvetja hann til dáða. Það er óhætt að segja að þátttakan hafi verið góð en hundruðum mynda hefur verið deilt á síðu verkefnisins á Facebook

„Viðbrögðin voru sterk og þátttaka góð. Þrátt fyrir samkomubann og takmarkanir í daglegu lífi hefur fólk verið mjög duglegt að fara út að ganga. Margir hafa komið sér í ágætt form og munu vonandi halda áfram að ganga í sumar“ segir Páll Guðmundsson framkvæmdastjóri Ferðafélags Íslands. „Almennt eru aðstæður góðar til útivistar allt í kringum okkur, bæði göngustígar í okkar nærumhverfi og aðgengileg fjöll í nágrenninu og margt að skoða og það þarf ekki alltaf að fara langt til að upplifa bæði kyrrð og fegurð.”

Þrír vinningshafar 

Nú hafa þrjú nöfn verið dregin úr fjallaskálapotti Ferðafélagsins en það þótti við hæfi að Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra, sæi um dráttinn.

Vinningshafarnir eru: Anna Björk Sveinsdóttir, Margrét Steinunn Guðjónsdóttir og Inga S. Guðbjartsdóttir. Hljóta þær sumarleyfisferð að eigin vali með Ferðafélaginu. Við óskum þeim að sjálfsögðu hjartanlega til hamingju.

Drögum aftur í júní

Við hvetjum alla til að halda áfram að ganga og deila með okkur myndum úr göngunum því við ætlum að  halda áfram í maí. Í júní drögum við aftur úr hópi þátttakenda og þá hljóta þrír heppnir fjölskyldugistingu í Langadag í Þórsmörk í tvær nætur.