Yndislegt í Emstrum

Stund milli stríða hjá skálavörðum í Emstrum. Guðbjörn og Heiðrún skálaverðir.
Stund milli stríða hjá skálavörðum í Emstrum. Guðbjörn og Heiðrún skálaverðir.

Guðbjörn Gunnarsson og Heiðrún Ólafsdóttir eru skálaverðir FÍ í Emstrum og hafa þau verið tvö ár skálaverðir þar á bæ.  Við tókum Guðbjörn tali um sumarið og lífið í Emstrum.

Fólk dofallið yfir fegurðinni
„Fólk kemur hingað í svona einskonar endorfín losti eftir gönguna og hreinlega orðlaust yfir fallegri náttúru. Gestir tala líka um hvað ríki hér einstaklega mikill friður. Markarfljótsgljúfrið er að vekja rosalega mikla lukku, einnig hefur fólk verið mjög ánægt með Hattfellsgilið,“ hefur Guðbjörn eftir gestum í Emstrum.

Nýjungar í Emstrum
„Hér í Emstrum er fullt hartnær alla daga,“ segir Guðbjörn. „Við erum með stórt samkomutjald sem gestir nota til skjóls og að snæða mat í, það er að vekja þvílíka lukku og er mikið notað. Við fengum einnig nýja vatnsveitu hér í sumar og vatnið rennur óaðfinnanlega.“

Kalt bað í Emstrum
„Agnar trúss útbjó stíflu hér í læknum þannig að fólk getur farið í kalt bað og endurnýjast á líkama og sál. Hjá mér er einmitt maður frá Georgíufylki í Bandaríkjunum sem er staðráðinn að nýta tækifærið skella sér í lækinn á eftir. Lækurinn er ískaldur, um 4-6°c þannig að hann er mjög hressandi,“ segir Guðbjörn

Vinátta og kærleikur
„Hér ríkir svo góð og falleg vinátta milli allra, gestir, leiðsögumenn og trússar eru allir svo miklir vinir að það er yndislegt.“

Kærleikskorn frá skálaverði
Að lokum les Guðbjörn upp fyrir okkur kærleikskorn úr smiðju Heiðrúnar skálavarðar, „Ef okkur líður vel þá getum við gefið ástina áfram til gestanna.“  „Heiðrún er alveg ótrúlega fær í að gera við allt sem kemur upp, hún er alveg á við sjö iðnaðarmenn,“ segir Guðbjörn áður hann tekur við gestum sem voru að koma í Emstrur.