Gönguleiðir: Baula

Vesturland

Baula

Lýsing

Baula er tignarlegt og frægt fjall í uppsveitum Borgarfjarðar. Hún rís 917 metra yfir sjó og er brött og frekar erfið uppgöngu. Fyrir vikið er hún eftirsótt meðal göngumanna sem allir vilja hafa staðið þar uppi þótt flestir segir eftir gönguna að þetta geri þeir aldrei aftur.
Ástæðan er eflaust sú að leiðin liggur um brattar skriður úr líparíti sem eru lausar undir fæti og á köflum er leiðin stórgrýtt og verður aukinheldur blaut og hál í votviðri.
Fyrir vikið verða göngumenn að eiga það við sig og sína færni hvort og hvenær þeir leggja í Baulu og rétt er að ráða fólki frá því nema veður sé gott og færi ákjósanlegt. Vetrarferð á Baulu er ekki góð hugmynd nema með fullan öryggisbúnað og kunnáttu í notkun hans.

En á fögrum sumardegi er þetta skemmtileg ganga og útsýni af þessu tígulega fjalli frábær um allan Borgarfjörð. Best er að skilja bílinn eftir áður en ekið er yfir Bjarnadalsá við leiðina yfir Bröttubrekku. (GPS N. 64. 49. 930 W. 21. 29. 199). Svo skal haldið meðfram ánni og halda á brattann við mynni Mælifellsgils. Frábært útsýni er af toppnum( GPS N. 64. 50.939 W. 21. 26.355) og hægt að bera kennsl á fjöll um allt Vesturland.  Hægt er að gera úr þessu ferðalagi hring með því að fara ofan af fjallinu að sunnanverðu og eiga þannig stórkostlegan dag á fjöllum.

Hver var fyrstur á toppinn?

Fyrstur til að ganga á Baulu svo vitað sé var Halldór Bjarnason hreppstjóri í Litlu-Gröf. Það gerði hann árið 1851. 
Í gömlum sögnum er sagt að á tindi Baulu sé tjörn  þeirrar náttúru að á Jónsmessunótt fljóti upp í henni óskasteinar. Sé maður staddur þar á réttu augnabliki og geti gómað steininn þá getur maður óskað sér hvers sem er. Enginn göngumaður hefur orðið var við tjörnina á tindinum og ekkert rúm þar uppi fyrir þessháttar náttúrufyrirbæri.
Kannski var Halldór Bjarnason að gá að óskasteini þegar hann fór fyrstur manna þarna upp.

GPS-ferill