Gönguleiðir: Blákollur

Suðvesturland

Blákollur

Lýsing

Blákollur er mjög yfirlætislaust fjall sem stendur rétt austan við Draugahlíðarbrekku skammt frá Litlu Kaffistofunni. Austan við Draugahlíðarbrekkuna heita Draugadalir og Blákollurinn rís yfir þeim.
Segja má að Blákollurinn sé hluti af fjalllendi Jósepsdals því hann er nær gróinn saman við Sauðdalahnúkana sem mynda eiginlega austurhlíð dalsins.
Þegar ekið er upp Draugahlíðarbrekkuna blasir við á hægri hönd minnismerki um þá sem farast í umferðarslysum. Þar er hægt að taka bíla út af veginum og hefja gönguna. Best er að þræða sig meðfram hraunjaðrinum uns fljótlega er komið í grasigróinn dalbotn Draugadala og þaðan fetar maður sig upp á Blákollinn. Engar sérstakar hindranir verða á vegi göngumanns því Blákollur er lágreist móbergsfjall laust við brattar hlíðar.
Þegar upp er komið gefst gott útsýni yfir hraun og fjöll umhverfis Blákoll en hraunbreiðan norðan fjallsins er hið svokallaða Kristnitökuhraun sem er ættað úr Eldborgum austan Bláfjallanna.
Svo geta menn valið um að þræða sömu leið til baka ofan af fjallinu eða rekja sig austur eftir því og fara niður austurendann. Þaðan er gott að fara þvert yfir hraunið út að veginum og fylgja honum til baka. Þannig er ferillinn teiknaður á kortið með þessari færslu.
GPS-ferill