Gönguleiðir: Botnssúlur

Suðvesturland

Botnssúlur

Lýsing

Botnssúlur eru klasi fjögurra tinda sem rísa fyrir botni Hvalfjarðar. Þær heita Vestursúla, Háasúla, Miðsúla og Syðstasúla og ná allar svolítið yfir 1000 metra hæð yfir sjó, Syðstasúla er hæst 1088 metra há.
Botnssúlur eru fyrir vikið einhver hæstu fjöll í nágrenni Reykjavíkur og vinsælt að ganga á þær. Það gerir þær kröfur til göngumanna að þeir séu í þokkalega góðu formi og kunni fótum sínum forráð. Á fögrum sumardegi er þetta verkefni sem flestir ættu að geta ráðið við. En í vetraraðstæðum gegnir allt öðru máli. Þá ætti enginn að fara upp á Botnssúlur nema með jöklabrodda og ísöxi ásamt kunnáttu í notkun þeirra.
Rétt er einnig að hafa í huga að gera má ráð fyrir að hitastig lækki um 1 gráðu fyrir hverja 100 metra svo þegar komið er upp undir 1000 metra hæð er rétt að búast við allt öðru veðurfari en niðri í byggð.
Hægt er að nálgast Botnssúlur á nokkra vegu. Hér er gert ráð fyrir að ferðalag okkar hefjist í Botnsdal í Hvalfirði og fylgi þeirri sem sem líklega er oftast farin á þessi tignarlegu fjöll.
Við hefjum gönguna á bílastæði við Stóra-Botn í Hvalfirði (GPS N. 64.23. 095. W. 21. 17. 558).

Þaðan er fylgt skýrri leið yfir tún og yfir brú á Botnsá og svo eftir troðningi eða vegi sem liggur áleiðis upp á Leggjabrjót sem var fyrrum alfaraleið milli Hvalfjarðar og Þingvalla.
Þegar komið upp á hrygg þar sem reisulegar vörður marka hina fornu leið skal víkja út af slóðinni og stefna upp hrygginn að Vestursúlu. Hér sleppir merkingum og göngumenn verða að treysta á eigin hyggjuvit og GPS. Leiðin liggur áfram upp síhækkandi hryggi og er stórgrýtt og ógreiðfær á köflum. Loksins stendur göngumaður másandi á efsta hrygg Vestursúlu og þarf þá að ganga stuttan spöl eftir hryggnum á hæsta tindinn. (GPS N. 64. 21. 127 W. 21. 11. 264).

Útsýnið af toppnum er stórkostlegt, sérstaklega yfir Súlnadal sem er umkringdur háum fjöllum og einnig austur yfir öræfin þar sem jöklar vaka í blámóðunni.

Hæsti foss á Íslandi

Þegar gengið er áleiðis á Botnssúlur sést ágætlega til Glyms í Botnsá í Hvalfirði. Glymur hefur lengi haft þá stöðu að vera hæsti foss á Íslandi eða 198 metra hár. Mjög erfitt er að sjá fossinn í heild sinni nema af einni tiltekinni snös á austurbarmi gljúfursins. En séð af gönguleiðinni blasir hann vel við og má dást að þessu náttúruundri.
Um þennan háa foss var ort:
Á hinn himinháa Glym
hver sem skimar lengi.
Fær í limu sundl og svim
sem á rimum héngi.

GPS-ferill