Gönguleiðir: Búrfell í Þingvallasveit

Suðvesturland

Búrfell í Þingvallasveit

Lýsing

Búrfell í Þingvallasveit er ekki mjög áberandi fjall en rís þó 783 metra yfir sjó á milli Þingvalla og Botnssúlna. Nokkuð drjúg ganga er að fjallinu en létt og þægileg og því hefur fjallið notið vinsælda meðal göngumanna undanfarin ár.
Best er að skilja bíl eftir við túnfótinn á Brúsastöðum í Þingvallasveit (GPS N. 64. 16. 144 W. 21. 09. 290) og halda þaðan til fjalls. Fyrst yfir lágan háls og meðfram á sem rennur þar efra. Þar má sjá leifar af heimarafstöð sem eitt sinn veitti birtu og yl til heimamanna.
Svo halda göngumenn áfram og stefna á Búrfellið. Leiðin liggur um mýrar og mela og sumpart gróið land og líklega sést sauðfé þarna á sumardegi.
Loks er komið á toppinn (GPS N. 64. 16. 144 W. 21. 09. 290) og þaðan gefst ágætt útsýni til hinna tignarlegu Botnssúlna og yfir Leggjabrjót sem er hin forna þjóðleið milli Hvalfjarðar og Þingvalla. Um Leggjabrjót fóru kaupmenn fyrri tíma sem tóku land í Maríuhöfn í Kjós og fóru svo inn Brynjudal og stystu leið til Þingvalla. Besti tíminn fyrir þá var að koma í júní þegar þinghald stóð yfir og allir sem einhverja kaupgetu höfðu voru staddir á Þingvöllum.
Eftir að hafa skyggnt umhverfið og borið kennsl á helstu fjöll ásamt því að fá sér feita rúgbrauðssneið með kæfu úr sínum nestismal er rétt að halda ofan aftur. Ekkert jafnast á við rólega fjallgöngu á fögrum sumardegi.
GPS-ferill