Gönguleiðir: Esjan upp að Steini

Suðvesturland

Esjan upp að Steini

Lýsing

Esjan upp að Steini er áreiðanlega vinsælasta gönguleið á Íslandi. Leiðin liggur frá bílastæði við Mógilsá í Kollafirði, (GPS N. 64.12.556 W. 21.42.787) upp með ánni að vestan. Skýr og góður stígur er alla leið að Steininum og skilti leiðbeina göngufólki um leiðina og aðra stíga í Esjunni.
Neðarlega í fjallinu í 225 metra hæð skiptist leiðin og liggur önnur yfir brú á Mógilsá og upp með ánni að austan en hin liggur beint upp með ánni að vestan. Þessar leiðir koma svo saman við Steininn undir Þverfellshorni.
Eystri leiðin er minna brött en hin og því vinsælt að fara hring með því að ganga upp aðra leiðina og niður hina. Að vetrarlagi er nauðsynlegt að hafa hálkubrodda meðferðis því klaki vex oftast eftir því sem ofar dregur. Segja má að vestari leiðin sé öruggari því meiri líkur er á snjóflóðum á eystri leiðinni eða grjóthruni í vorleysingum.
Frá Steininum liggur slóð upp á Þverfellshorn en hún er brött og óráðlegt að fara hana að vetrarlagi nema fyrir vana fjallamenn með réttan öryggisbúnað.
Brýnt er fyrir göngumenn að fylgja merktri leið öryggis síns vegna og einnig til þess að hlífa gróðri því umferð er mikil.
Steinninn í Esjunni (GPS N. 64.13.823 W. 21.43.092) er stór steinn með áföstu skilti sem á stendur Steinn. Þar er box með gestabók sem margir skrifa nafn sitt. Það munu hafa verið hafnfirskir íþróttaþjálfarar sem settu skiltið á Steininn því þeir vildu vera vissir um að nemendur þeirra færu upp að réttum Steini á Esjuæfingum.
Í dag er vinsælt að taka tímann á sjálfum sér á leiðinni og margir miða við að sá sem kemst upp að Steini á 1 klst eða minna sé í nógu góðu formi til þess að ganga á Hvannadalshnjúk. Engin ábyrgð er tekin á því að þetta sé rétt en víst er þetta ágæt hvatning til þess að fylgjast með ástandi sínu. Í þessum tímamælingum er alltaf miðað við eystri leiðina en vel hægt að miða við vestari leiðina líka.

GPS-ferill

Um jarðfræði Esjunnar

Esjan er eins og opin jarðfræðibók sem ísaldarjökullinn hefur opnað. Fyrir ísöld var landið flatt og hvert hraunlag hlóðst ofan á annað. Síðan kom ísöldin með kuldaskeiðum og hlýskeiðum, gosum undir jökli sem mynduðu móberg en á hlýskeiðum rann hraun að og yfir móbergsmyndunum.
Þannig er Esjan mynduð. Virknin hófst fyrir tæpum 3 milljónum ára og stóð í um eina milljón ára. Neðst í fjallinu eru klettabelti, um miðbikið holt og móbergsskriður og svo aftur klettabelti á toppnum. Hamrabeltin neðst eru ekki hefðbundin hraunlög heldur innskot úr basalti sem hafa ruðst inn í móberg. Efst í fjallinu eru svo hraunlög frá hlýskeiði sem hafa runnið austan úr Skálafelli og yfir móbergið.
Svo nær jökulinn yfirhöndinni, gosvirknin minnkar og jökulhvelið opnar veilur í berggrunninum og sverfur fjallið og mótar það í núverandi mynd.

Fjall með tveimur hæstu tindum

Esjan hefur þá sérstöðu meðal fjalla að tveir tindar bera nafn sem gefa til kynna að þeir séu hæsti punktur fjallsins. Annars vegar er Hátindur 909 m.y.s. á milli Grafardals og Þverárdals. Hins vegar er Hábunga 914 m.y.s. sem er inni á miðju fjallinu röskan kílómetra norðaustur af Þverfellshorni.

Um nafn fjallsins

Í Kjalnesinga sögu segir að Esja, auðug ekkja og fjölkunnug  hafi komið með Örlygi Hrappssyni til Íslands. Hann nam land á Kjalarnesi en "gaf upp land ok bú" til Esju og hún bjó á Esjubergi. Kannski heitir fjallið eftir henni. Orðið esja getur líka þýtt lausamjöll eins og orðið ysja. Í norskum örnefnum er orðið tengt tálgusteini eða kleyfri steintegund en slíkir steinar finnast í Esju eins og örnefnið Kléberg vísar einnig á.
Frumlegasta skýringin á nafni fjallsins er ótvírætt sú að á vorin þegar snjó er að leysa úr giljum megi stundum lesa nafnið Esja með rúnaletri í giljunum vestan við Gljúfurdal.