Gönguleiðir: Eyrarfjall í Kjós

Suðvesturland

Eyrarfjall í Kjós

Lýsing

Eyrarfjall er 476 metra hátt og ágætlega staðsett við sjó fremst í Hvalfirði. Fjallið stendur stakt því Miðdalur nær hringinn í kringum það. Af fjallinu er afbragðs góð útsýn yfir Hvalfjörð og nágrenni og það er frekar létt uppgöngu og hefur því orðið vinsælt með göngumönnum.
Hægt er að fara upp á fjallið á nokkrum stöðum en hér verður bent á leið sem liggur frá bænum Kiðafelli í Kjós.
Við gatnamót við túnið á Kiðafelli standa leifar af járnbrautarvagni sem er einhvers konar stríðsminjar. Þar er hægt að skilja bíl eftir og ganga síðan eftir veginum inn Miðdal og beygja út af þegar komið er inn fyrir tún og fara upp meðfram girðingunni. (GPS N. 64. 18. 163. W. 21. 46. 558).  Þaðan liggur  leið upp á vesturenda Eyrarfjalls og víða orðinn stígur eftir umferð göngumanna.
Þegar komið er upp á öxlina sér göngumaður að fjallið er í raun klofið sundur af dalverpi, Stardal, sem liggur frá austri til vesturs og þarf að fara yfir litla á í botni hans til þess að komast á hæsta kollinn á fjallinu. (GPS N. 64. 19. 230. W. 21. 42. 333). Uppi á fjallinu eru melar og smátjarnir en greiðfært gönguland.
Ofan af fjallinu sést vel yfir Hvalfjarðareyri sem gengur út í fjörðinn við rætur þess. Hvalfjarðareyri er eini fundarstaður baggalúta á Vesturlandi og er áhugaverður áfangastaður.

GPS-ferill

Baggalútar á Hvalfjarðareyri

Hvalfjarðareyri gengur út í Hvalfjörð norðan við Eyrarfjall. Í eyrinni eru leifar af líparíti en það er einmitt í slíku bergi sem baggalútar myndast. Baggalútar eru sjaldgæfar steinmyndanir og Hvalfjarðareyri en einn af þekktari fundarstöðum þeirra á Íslandi og sá eini á vesturhluta landsins.
Baggalútar eru stundum kallaðir hreðjasteinar en þeir eru kúlulaga og oftast tveir til þrír fastir saman. Þeir myndast í líparíti við samsöfnun efnis þegar bergið storknar. Þeir hafa geislótt mynstur með kvars í kjarnanum í miðjunni og geta verið frá örsmáum baunum að stærð upp í hnefastórar kúlur.