Gönguleiðir: Geitafell

Suðvesturland

Geitafell

Lýsing

Geitafell er 509 metrar á hæð yfir sjó. Það stendur stakt vestan Þrengslavegar og á góðum degi er afar víðsýnt af því. Að ganga á Geitafellið er frekar létt ganga og ætti að henta flestum.
Geitafell er móbergsstapi og hefur myndast við gos undir jökli, en gosið hefur ekki náð upp úr ísaldarjöklinum. Misgengi liggur eftir endilöngu fellinu frá suðvestri til norðausturs. Austurhlutinn hefur sigið nokkuð og sést það vel á loftmyndum.

Lágt fjall sem nefnist Sandfell er rétt sunnan við Þrengslaveg á móts við Geitafellið. Þar er hægt að fara út af veginum og inn á malarveg og þar er best að hefja gönguna. (GPS. N. 63. 57. 672. W. 21. 27. 031).
Leiðin liggur yfir slétt land, mosavaxnar hraunhellur sem eru líklega yngri en Geitafellið sem hefur myndast á ísöldinni og hraun síðar flætt í kringum það. Geitafellið er ekki erfitt uppgöngu en auðveldast er að stefna á austurendann á því því þar er minnsti brattinn. Þar er farið upp og síðan vestur eftir fjallinu á hæsta toppinn (GPS N. 63. 56. 524. W. 21. 31. 266). Einnig er hægt að fara meðfram fjallinu að vesturendanum og ganga þar upp næstum beint á toppinn en sú leið er brattari.

GPS-ferill