Gönguleiðir: Grímannsfell

Suðvesturland

Grímannsfell

Lýsing

Grímannsfell er 482 m.y.s. efst í Mosfellsdal. Það er vinsæll takmark göngumanna og hægt að nálgast það á ýmsa vegu. Hér er gert ráð fyrir því að ganga frá bílastæði við Gljúfrastein í Mosfellsdal (GPS N. 64.10.870 W. 21.34.944) og fylgja stikaðri leið frá safninu meðfram ánni Köldukvísl.
Sagt er að nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness hafi oft gengið þessa leið meðfram ánni sér til heilsubótar, fram að Helgufossi og til baka en fáum sögum fer af fjallgöngum hans.

Leiðin liggur meðfram Köldukvísl eftir merktri slóð. Fljótlega kemur göngumaður að fallegum fossi í ánni sem heitir Helgufoss. Þar er snotur áningarstaður og rústir af seli sem kennt er við Helgu.
Áfram er haldið uppfyrir fossinn en spölkorn fyrir ofan hann er farið yfir ána og haldið á brattann. Förinni er heitið á Stórhól sem er austast á Grímannsfelli og er hæsti punkturinn á fjallinu. (GPS N. 64.09.569 W. 21.31.201)
Þegar þangað er komið má kalla að markinu sé náð og halda til baka sömu leið. Annar möguleiki væri að halda til vesturs fram á þann hluta fjallsins sem kallaður er Flatafell og fylgja stikaðri leið þar ofan fjallið og koma niður skammt fyrir ofan Gljúfrastein.

Einnig væri hægt að aka inn í Helgadal-beygt rétt áður en komið er að Gljúfrasteini- og ganga þaðan. Það er stysta leiðin upp á Flatafell sem er vesturendi fjallsins.
GPS-ferill

Kiljan yrkir um Mosfellsheiði

Halldór Kiljan Laxness orti kvæði um Mosfellsheiði sem kannski hefur verið sett saman á gönguferðum hans meðfram Köldukvísl fram að Helgufossi.

Ó Mosfellsheiði ör af óttusöng
eg ann þér best í fuglakvaki nætur.
Hér eru borin blessuð lömbin svaung
með bláa grön og klaufalega fætur.

Hér læðist bakvið ása ærin stygg
yndisleg kroppar fuglagrasið mjóa;
fjöllunum mínum er hún trú og trygg
og töfrum þeirra alt til fyrstu snjóa.

Hér hefur veisla varað þúsund ár
og varir meðan æruprísinn sprettur,
bláklukkan fellir dulræn döggvartár
og deplar auga mófuglsúnginn nettur.