Gönguleiðir: Helgafell við Mosfellsdal

Suðvesturland

Helgafell við Mosfellsdal

Lýsing

Helgafell við Mosfellsdal er ekki mjög hátt fjall en vel fallið til útivistar. Leiðir hafa verið stikaðar og merktar umhverfis fjallið og upp á það á nokkrum stöðum. Fyrir vikið er hægt að velja ýmsar leiðir eftir veðri og færð hverju sinni og áhuga göngumanna.
Sá hringur sem hér er sýndur á korti er miðaður við að göngumenn fari upp á fjallið að vestan skammt frá gatnamótum við Þingvallaveg (GPS N.64.10.640 W. 21.40.145). Eftir tiltölulega stutta göngu er komið á hæsta topp fjallsins (GPS N.64.10.447 W. 21.39.095)
Svo er hægt að fylgja stikum austur eftir fjallinu, ganga á annan topp austan á því (GPS N.64.10.443 W. 21.38.453) og fara síðan ofan af fjallinu að austan og komast inn á veg gegnum Skammadal og fylgja honum norður fyrir fjallið og koma aftur á upphafsstað.

Leiðir er vel merktar og áríðandi að fylgja stikum og þakka Mosfellingum í huganum fyrir það góða starf sem þar hefur verið unnið í merkingu gönguleiða.
GPS-ferill

Stríðsminjar við Helgafell

Við upphaf gönguleiðarinnar sjást leifar af mannvirkjum frá síðari heimsstyrjöldinni. Þarna voru vatnstankar sem fyrir sjúkrahús sem hét Helgafell Hospital.
Helgafellsspítali var mjög stór. Þar voru 1000 legurúm og starfsfólkið var 660 þegar flest var. Hverfið samanstóð af tugum stórra bragga, þar sem voru leguskálar, skurðstofur, heilsugæsla, tannlæknar, íbúðir starfsfólksins og birgðastöðvar. Í dag sjást engin ummerki um spítalann önnur en rústir vatnstanka á hæðinni fyrir ofan spítalasvæðið.
Þegar komið er upp á fjallið má sjá hleðslu í skjóli rétt við toppinn. Þar sátu dátar á verði á stríðsárunum og höfðu auga með umferð og má hafa verið kaldsamt starf.

Hvítklædda konan

Í Mosfellsdal hafa lengið þekkst sögur um hvítklædda konu sem sést stundum í vegkantinum við Helgafell. Stundum hefur hún tekið sér far með bílum. Sagt er að þetta sé vofa hjúkrunarkonu sem starfaði á herspítalanum í stríðinu. Tveir menn kepptu um ástir hennar og varð annar hlutskarpari. Skömmu síðar varð hún fyrir bíl og lést en sagt var að sá vonbiðill hennar sem beið lægri hlut hefði ekið bílnum.