Gönguleiðir: Húsfell

Suðvesturland

Húsfell

Lýsing

Húsfell er lágreist móbergsfjall sem rís úr hraunhafinu spölkorn austan við Helgafell við Kaldárbotna. Húsfell, Helgafell og Valahnúkar eru mynduð við gos undir jökli á ísöld. Í slíkum gosum springur kvikan í sundur og myndar hauga eða dyngjur undir íshellunni. Kvikan límist svo saman í kólnunarferlinu og myndar samfelldan massa sem kallast móberg.
Húsfellið hefur það tilkall til frægðar að vera hæsta fjall í Garðabæ. Þangað má gera skemmtilega gönguferð að mestu eftir merktum og stikuðum slóðum.
Ferðin hefst við bílastæði við enda Kaldárselsvegar. (GPS N. 64.01.564 W.21. 52.459) Fyrst er gengið um Kaldárbotna eftir merktri slóð, síðan beygt austur fyrir Valahnúka og haldið með þeim að norðan. Við norðurenda Valahnúka er áfram fylgt stikum sem leiða göngumann áfram áleiðis að lágum hól sem heitir Víghóll og liggur leiðin yfir hann. Þegar komið er austur af Víghólnum er gengið yfir dalbotn eða dæld í stefnu á Húsfell og þarf að hafa augun hjá sér því gjár eru í hrauninu á leiðinni en þær eru þó engar torfærur og auðvelt að komast yfir þær.
Leiðin upp á fjallið sjálft er brött á köflum en nær alla leið er þokkalega skýr stígur. Efst á toppnum (GPS N. 64.01.589 W. 21.47.950) er móbergshnallur og gott útsýni yfir hraunbreiðuna sem kölluð er Húsfellsbruni og kom upphaflega ofan úr Rauðhnúkum við Bláfjöll.
Svo er líklega best að fara sömu leið til baka og fylgja stikum og slóðum. Svo mætti víkja til suðurs við endann á Valahnúkum og fara í gegnum Valahnúkaskarð milli Helgafells og Valahnúka áleiðis aftur að upphafsstað.
GPS-ferill