Gönguleiðir: Ingólfsfjall

Suðurland

Ingólfsfjall

Lýsing

Ingólfsfjall er breiðvaxið og stórt fjall 551 m.y.s. sem setur svip á allt umhverfi sitt. Það er bæjarfjall Selfyssinga og gnæfir yfir hið slétta Suðurland.
Ingólfsfjall vekur áhuga göngumanna og vel viðráðanlegt verkefni að fara þangað upp. Algengasta leiðin liggur frá bílastæði rétt hjá (GPS. N. 63.57.523 W. 21. 02..971) malarnámunni við suðurenda fjallsins. Þetta er svolítið bratt og getur verið erfitt í vetrarfæri en á sumardegi er þetta hverjum manni fært.
Þegar komið er upp á brún er komið næstum í fulla hæð fjallsins en margir vilja samt gera lengri gönguferð og fara inn á Inghól (GPS N. 63. 59. 728 W. 21.01.676) sem er inni á miðju fjalli. Samkvæmt fornum sögum er Ingólfur Arnarson landnámsmaður heygður í hólnum en þegar göngumaður kemur nær hólnum verður ljóst að það eru líklega þjóðsögur.
Drjúgur spölur er frá fjallsbrún inn að Inghól og lendi menn í slöku skyggni þá er gott að kunna á GPS og geta látið þá dásamlegu tækni leiða sig á réttan veg að hólnum og til baka aftur.
Þetta er ekki eina leiðin upp á Ingólfsfjall því vel færar leiðir eru upp á það að norðan og stikuð leið liggur frá Alviðru upp á fjallið.
GPS-ferill

Hvar er Ingólfur?

Þegar ísöld lauk fyrir 10 þúsund árum lá sjór við hlíðar Ingólfsfjalls. Þegar farginu var létt af landinu reis það úr sæ og því er Suðurlandsundirlendið að mestu forn sjávarbotn.
Samkvæmt Landnámu hafði Ingólfur Arnarson vetursetu undir Ingólfsfjalli, nánar tiltekið á bænum Fjalli,  á leið sinni til Reykjavíkur þar sem þrælar höfðu fundið öndvegissúlur hans reknar. Ingólfur lét heygja sig á fjallinu, þar sem heitir Inghóll. Sagt er að hundur hans sé grafinn í minni haug þar rétt hjá og skip hans í Kögunarhóli sunnan fjallsins.
Til er sögn um að Ingólfur hafi vitjað konu í draumi og beðið hana að skíra son þann er hún gekk með Ingólf. Skyldi hann ala fyrstu 12 ár ævinnar á sauðakjöti og nýmjólk eingöngu og mátti mjólkin vera úr ám, kúm en þó helst köplum (hestum). Gengi þetta eftir átti pilturinn að geta vitjað fjársjóðs Ingólfs í haugnum á fjallinu. Ekki fór allt sem skyldi en pilturinn fann þó kistu í haugnum en gat aðeins snúið lykli í skrá hennar til hálfs og varð frá að hverfa.
(Árbók Ferðafélags Íslands 2003)