Gönguleiðir: Keilir

Suðvesturland

Keilir

Lýsing

Keilir er einkar fallegt móbergsfjall á Reykjanesi lagað eins og pýramídi. Margir leggja leið sína þangað því fjallið seiðir til sín göngugarpa þar sem það blasir við íbúum höfuðborgarsvæðisins.
Vel merkt leið er á fjallið frá bílastæði við svonefnda Höskuldarvelli nánar tiltekið við endann á lágum hrygg sem heitir Oddafell. (GPS N. 63.57. 195 W. 22.06.893)
Til þess að komast þangað þarf að aka suður Reykjanesbraut suður fyrir Kúagerði og fara út af og undir veginn. Svo er ekið undir háspennulínu, inn í malarnám og beygt til hægri inn á grófan malarslóða sem stefnir til suðausturs. Hann skal ekinn allt þar til komið er á nefnt bílastæði.

Gangan hefst með því að fylgja stikum meðfram Oddafelli og elta þær svo yfir hraunið sem er talsvert úfið. Meðfram leiðinni eru líka vörður því sumpart er þetta gömul alfaraleið yfir hraunið. Svo þegar hrauni sleppir kemst göngumaður á betra land og er fljótlega komið að Keili sem stendur í auðninni, samt ekki alveg einn því lágir kollar umhverfis hann heita Keilisbörn.
Skýr slóð liggur upp á topp fjallsins ( GPS N. 63.56.467 W. 22.10.348) og þar er hringsjá svo auðvelt er að glöggva sig á fjölbreyttum fjallahring Reykjanessins. Svo er létt að skondra til baka yfir hraunið hlaðinn orku sjálfrar náttúrunnar.
GPS-ferill