Gönguleiðir: Kerhólakambur

Suðvesturland

Kerhólakambur

Lýsing

Kerhólakambur rís á Esjunni vestan við Gljúfurdal 840 metra yfir sjó. Kerhólakambur er vinsæll meðal göngumanna sem hluti af fjölbreyttu leiðakerfi Esjunnar.
Kerhólakambur var samt miklu vinsælli áður en göngur fóru að tíðkast frá Mógilsá því þá var leiðin upp á Kerhólakambinn talin hin viðurkennda gönguleið á Esjuna.
Til þess að finna upphafsstað göngu þarf að beygja út af þjóðvegi eitt á Kjalarnesi við veðurathugunarstöðina og aka þann veg á enda og þá eru menn staddir rétt austan við túnið á Esjubergi. (GPS. N. 64. 12. 956 W. 21. 45. 736). Þaðan er merkt leið upp í mynni Gljúfurár sem þarna kemur fram á sléttlendið.
Stikla þarf yfir ána áður en göngumaður finnur stíg sem leiðir upp úr gilinu og svo þaðan upp frekar brattar brekkur áleiðis upp fjallið. Hægt er að fara fram á snasir við Bolagil á leiðinni og njóta náttúrunnar.
Lítill strýtulaga hóll á miðri heitir Nípuhóll og þar er gott að setjast og íhuga sinn gang. Nokkru ofar kemur göngumaður upp á öxl og þaðan sést yfir í Blikdal sem gengur inn í Esjuna að vestan. Nú skal víkja til hægri upp í gegnum klettabelti til þess að komast alla leið upp á Kerhólakamb. Leiðin gegnum klettana er merkt en þegar upp er komið þarf að ganga stuttan spöl inn kambinn til þess að komast að hæsta punkti. (GPS N. 64. 14. 195. W. 21. 44. 981).
Af Kerhólakambi er gott útsýni yfir vesturhluta Esjunnar, Blikdal og allan Faxaflóa og höfuðborgarsvæðið. Einfaldast er að fara sömu leið til baka aftur en með góðu skipulagi er hægt að gera hring og fara fram á Þverfellshorn og þar niður.
Rétt er að taka fram að góðum sumardegi er þetta gönguleið sem flestir ættu að ráða við þótt brekkur séu brattar. En að vetrarlagi er nauðsynlegt í bröttu fjalllendi eins og þessu að hafa fullan öryggisbúnað, jöklabrodda og öxi og kunna að nota hvort tveggja.
GPS-ferill