Gönguleiðir: Löðmundur

Hálendið

Löðmundur

Lýsing

Löðmundur er meðal hæstu fjalla á Landmannaafrétti 1079 m.y.s. Hvassbrýndur kambur hans er auðþekktur á löngu færi og sterkur svipur hans. Við rætur fjallsins er Löðmundarvatn og við vesturenda þess Landmannahellir sem er vinsæll áfangastaður.
Þaðan hefur verið merkt og stikuð leið upp á topp fjallsins svo hver sem vill getur tekið sér göngu á þennan svipmikla risa.
Gangan hefst á bílastæði við Landmannahelli (GPS N. 64.03.369 W. 19. 14. 477). Svo er stikunum fylgt í sveig upp að vesturenda fjallsins og þaðan upp brattar brekkur upp í fulla hæð.
Þegar upp á fjallið er komið liggur leiðin eftir því endilöngu því hæstu kollarnir eru á austurendanum. Í björtu veðri er stórbrotið útsýni af toppi Löðmundar (GPS N. 64. 03. 878 W. 19.11.453) yfir afréttinn og þann fjölbreytta fjallakrans sem skreytir hann með fjöllum umhverfis Laugar, Heklu, Rauðufossafjöll, Krakatindur og Þóristindur. Í björtu veðri sjást allri helstu jöklar landsins af Löðmundi. Rétt er að minna göngumenn á halda sig á stígnum því þunn mosaþekjan rofnar auðveldlega sé gengið utan hans.
GPS-ferill