Gönguleiðir: Meðalfell í Kjós

Suðvesturland

Meðalfell í Kjós

Lýsing

Meðalfell í Kjós stendur fallega og rís yfir samnefnt vatn í hinni fögru sveit, Kjósinni. Meðalfellið er ekki mjög hátt fjall, það nær 345 metra hæð yfir sjó. Talsvert víðsýni er af Meðalfellinu og ágætlega greiðfært að ganga á það.
Best er að leggja upp frá vesturenda fjallsins (GPS. N. 64. 19. 406. W. 21. 36. 158) og halda eins og leið liggur upp endann á því. Smátt og smátt mjókkar fjallið undir fótum göngumanns og verður að einskonar hrygg. Rétt er að halda sig fjarri tæpum brúnum en þegar göngumaður kemur að dálítilli klapparbungu með fimm smávörðum á er stutt á hæsta kollinn. (GPS N 64. 19. 124. W. 21. 34. 259).
Meðalfellið er hrygglaga og teygir sig frá austri til vesturs. Þótt auðvelt sé að fara sömu leið til baka ofan af fjallinu mætti líka halda áfram og ganga eftir því endilöngu. Við það lengist gangan nema einhverjir göngufélagar hafi skilið eftir bíl við hinn endann. Leiðin niður fjallið að austan er greiðfær svo óhætt er að mæla með göngu á Meðalfell sem verkefni við flestra hæfi.
GPS ferillinn hér að neðan sýnir leiðina eftir fjallinu endilöngu.
GPS-ferill