Gönguleiðir: Mosfell

Suðvesturland

Mosfell

Lýsing

Mosfell við Mosfellsdal er lágreist og hógvært fjall sem er prýðilega fallið til göngu. Merktar leiðir eru um fjallið en hér verður sagt til vegar um hring sem byrjar og endar við Mosfellskirkju. (GPS N.64.11.132 W. 21.37.210).
Frá kirkjunni liggur stikuð leið áleiðis upp fjallið að sérkennilega löguðum kolli sem heitir Diskur. Síðan áfram upp aflíðandi brekkur uns komið er upp á austurenda fjallsins. Þaðan er síðan gengið eftir nær sléttu landi vestur eftir fjallinu á hæsta punkt þess. (GPS N. 64.11.741 W. 21.38.185).

Þaðan er ágætt útsýni til Esjunnar og hennar ýmsu fjalla og austur um Mosfellsheiði og Mosfellsdal. Sé kort meðferðis er gaman að spreyta sig á því að finna nöfn allra fjalla í augsýn.
Frá toppnum má ganga sömu leið til baka en einnig fylgja stikum til suðurs og niður af fjallinu rétt ofan við Hrísbrú sem er næsti bær við Mosfell. Skýr stígur liggur síðan ofan garðs við Hrísbrú og aftur inn á stíginn rétt ofan við Mosfell.
GPS-ferill

Silfur Egils

 Í Egilsögu er sagt frá því að Egill Skallagrímsson bjó í ellinni að Mosfelli hjá Þórdísi bróðurdóttur sinni og Grími. Egill átti tvær kistur fullar af ensku silfri sem Aðalsteinn Englandskonungur hafði gefið honum.
Egill sagði Þórdísi eitt sinn að hann vildi ríða til Alþingis með fjársjóðinn þá um sumarið. Þar hugðist hann opna kisturnar á Lögberg og dreifa silfrinu yfir þingheim og skemmta sér við pústra og hrindingar manna.
Þórdís og Grímur vildu ekki leyfa honum þetta. Þegar þau voru farin til þings lét Egill tvo þræla hjálpa sér að komast upp á hest með kisturnar tvær og hvarf svo föruneyti þetta til fjalls.
Að morgni fannst Egill einn síns liðs og síðar sagðist Egill hafa grafið silfrið með aðstoð þrælanna en síðar drepið þá báða svo enginn vissi hvar silfrið væri fólgið. Egill dó svo um haustið og leitin að fjársjóði hans stendur enn. Í Egilssögu stendur að austan við garð á Mosfelli sé gil eitt og þar hafi fundist enskir peningar eftir miklar hlákur.