Gönguleiðir: Skálafell á Hellisheiði

Suðvesturland

Skálafell á Hellisheiði

Lýsing

Skálafell á Hellisheiði lætur ekkert sérlega mikið yfir sér. Það nær 580 metra hæð svo það rís ekki mjög hátt yfir umhverfið. Ferðalangur sér það út um bílgluggann á leið yfir Hellisheiði og veit kannski ekki að þetta kurteislega fjall er einn besti útsýnisstaður í þessum landshluta.
Hægt er að beygja út af þjóðveginum yfir Hellisheiði við afleggjara við veðurathugunarmastur og aka inn á veg sem liggur áleiðis að borholum undir Hverahlíð. Ekki skal fara lengra en skilti leyfa. Einnig má aka út af þar sem leiðslan liggur undir veginn og GPS ferill og kort sem fylgja þessari færslu miða við þann upphafsstað.
Hvar sem gangan nákvæmlega hefst má ganga í stefnu á Skálafellið. Fyrst þarf að fara upp á hjalla eða stall sem myndar eins og undirstöðu fjallsins. Þá tekur við ganga á sléttum kafla uns göngumaður er staddur við rætur Skálafellsins og þá er stuttur en svolítið brattur kafli eftir upp á topp.
Ekki er stikuð leið á Skálafellið svo nauðsynlegt er að vera með GPS til að forðast villur ef dimmt er en engar sérstakar torfærur eru á leiðinni.
Síðasta spölinn er betra að leita upp á fjallið austanvert en aðrar leiðir eru vel færar að sumarlagi. Á vetrardegi þarf að kunna fótum sínum forráð og vera með nauðsynleg öryggistæki, einhvers konar brodda og hugsanlega ísöxi kunni menn að nota hana.
Útsýnið af Skálafellinu er gríðarlega mikið því í björtu veðri sér yfir allan Faxaflóa allt til Snæfellsjökuls og í austri yfir allt Suðurlandsundirlendi með Eyjafjallajökli, Mýrdalsjökli og Vestmannaeyjum í bakgrunni.
GPS-ferill