Gönguleiðir: Skálatindur

Hálendið

Skálatindur

Lýsing

Skálatindur er í Esjunni norðanverðri og rís 880 m.y.s. Hann er einn af fjölmörgum áfangastöðum í fjallabálknum sem við köllum einu nafni Esju. Skálatindur er frekar auðveldur uppgöngu í þeirri merkingu að engar sérstakar hindranir eru á vegi göngumanns. Leiðin er hinsvegar ekki merkt svo óráðlegt er að fara þessa leið nema einhver í hópnum kunni að fara með GPS og þátttakendur hafi einhverja fjallareynslu. Ekki er ráðlegt að fara þessa leið að vetrarlagi nema undir leiðsögn og nauðsynlegan öryggisbúnað.

En á sumardegi er þetta skemmtileg gönguleið sem gefur færi á góðu útsýni yfir hina fögru Kjós, Meðalfellsvatn og fjölbreytt landslag norðan við Esjuna. Leiðin liggur upp hrygg milli Flekkudals og Eilífsdals.
Gangan hefst við sumarbústaði við endann á Hjarðarholtsvegi í Kjós (GPS N. 64.18.679 W. 21.38. 041)sem aka skal á enda. Þaðan upp brekkur og rinda eftir hryggnum milli dalanna. Leiðin er greiðfær en fáeinir hjallar eða klif verða á vegi göngumanns en sléttara á milli. Tindurinn er ekki skýrt afmarkaður heldur er komið upp á aflíðandi bungu (GPS N. 64. 15. 142 W. 21. 36. 851) í norðurbrún Esjunnar og þar segir GPS tækið að 880 metra hæð sé náð og hægt að fara ofan aftur.
GPS-ferill